„Þetta hefur byrjað mjög vel, ég er kominn með sjö fiska strax í byrjun,“ segir Jón Svansson hákarlaveiðimaður á Vopnafirði, spurður um ganginn í veiðunum það sem af er sumri.
„Menn byrja bara þegar þeir byrja,“ svarar Jón síðan spurður hvenær hákarlaveiðin hefjist vanalega.
Áður fyrr segir Jón að oft hafi verið byrjað strax í mars þegar menn hafi verið að róa á hákarl eingöngu til að hirða úr honum lifrina til eldsneytisgerðar – sem reyndar enginn vilji sjá í dag. Menn hafi legið fyrir föstu og róið mikla lengra út eftir hákarlinum en nú tíðkast.
Upp í tvö hundruð stykki
„Þá fóru menn út og veiddu hundrað til tvö hundruð stykki,“ segir hann um hákarlaveiðimenn fyrri daga. „Þeir voru kannski með hundrað tunnur af lifur úr 100 til 120 fiskum sem eru þá tíu tonn. Það er ekkert smáræði.“
Í seinni tíð er það ekki fyrr en í maí sem menn fara í gang og aðalveiðitímann segir Jón vera maí og júní. Og í gamla daga var að sögn Jóns veitt á færi en ekki á línu eins og í dag.
Jón kveðst leggja línu á þremur stöðum á sama svæði til þess að vera ekki alveg ofan í sömu holunni eins og hann orðar það. „Ég er hérna norðaustur af Bjarnareynni,“ segir hann um veiðisvæði sitt.
Í frost þar til síðla sumars
Þegar rætt er við Jón hafði hann verið á sjó daginn áður og ekkert fengið en veitt fimm hákarla í róðrinum þar á undan.
„Það er óþægilega mikið,“ viðurkennir Jón. „Ég þarf að koma þessu í frost þannig að svona mikil veiði er ekkert rosalega góð, þetta þarf að koma í hæfilegum skömmtum.“
Eftirspurnina segir Jón vera ágæta. Hann kveðst leggja mikið upp úr að vera aðeins með góðan hákarl og láti hann einfaldlega fara ef hann er ekki sáttur við hann í verkuninni.
Jón hefur verið viðloðandi hákarlinn í að verða fjörutíu ár og verkar allt sjálfur. „Ég er farinn að verka inni því ég nenni ekki að standa í því að hengja hann upp og láta veðráttuna eyðileggja þetta,“ segir hann. Þegar hann byrjaði var hákarlinn hengdur upp úti eftir að hafa verið lagður í kös.
Rakinn rekur Jón inn
„Það klikkaði aldrei verkunin en í dag er orðinn svo mikill raki í loftinu, það eru svo miklar rigningar hérna á haustin, að þetta er bara ekki gerandi. Það er bara algjör heppni ef þetta lukkast. Ég er að reyna að komast fram hjá þessari heppni – sem ekki er hægt að stóla á – með því að gera þetta inni,“ útskýrir Jón.
Hákarlinn sem Jón veiðir núna sker hann í stór stykki og setur í frost. Hann tekur hann svo út seinna í sumar til að leggja í kös. „Þar verður hann kannski einn og hálfan eða tvo mánuði og svo er hann settur í þurrkklefa.“
Vasapeningar fyrir hippa
Hákarlarnir fimm sem Jón fékk í einni og sömu ferðinni á dögunum voru allir rúmir fjórir metrar og vógu samtals fjögur tonn. Best sé að hákarlinn sé fjórtán til fimmtán „góð fet“ því ef hann sé styttri verði umfangið og þar með þyngdin mikið minni.
„Ég er að dunda við hitt og þetta og gríp í hákarlinn þegar ég er ekki að gera neitt annað. Ég er með einn bát á strandveiðum, strákurinn hjá mér er í því. Ég er bara orðinn það fullorðinn, þetta er svona ellihippasport að vera í þessu, smá vasapeningar.3