Þekkingarsetur Vestmannaeyja hefur undanfarin ár unnið að því að þróa að ferðir við veiðar og vinnslu á rauðátu við Ísland. Það er mat Hafrannsóknastofnunar að stofninn sé um 10 milljónir tonna. Fyrir hvert 1.000 tonn af fullunninni rauðátu fengist um einn milljarður í útflutningsverðmætum. Engin útgerð var tilbúin að taka þátt í rannsóknum og veiðum í sumar með Þekkingarsetrinu á sama tíma og fjöldi skipa hefur legið við bryggju út af loðnuleysi eða farið langferðir suður í höf til að sækja kolmunna.
Í fyrrasumar voru tilraunaveiðar á rauðátu á vegum Þekkingarseturins í samstarfi við Hafrannsóknastofnun á hafrannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni í Kantinum austan Vestmannaeyja. Að sögn Harðar Baldvinssonar, forstöðumanns Þekkingarsetursins, gengu veiðar mjög vel. Um hálft tonn fékkst af hreinni rauðátu án meðafla á togtímann. Hörður segir að annað verði upp á teningnum núna í sumar því ekki fáist samstarfsaðilar í veiðarnar. Reynt verði að fá Hafrannsóknastofnun í samstarfið á ný en Þekkingarsetrið hefur nú að láni frá norskum samstarfsaðilum fullbúið flottroll til veiðanna sem einnig var notað á Bjarna Sæmundssyni HF í fyrra.

„Veiðarnar gengu mjög vel og það var enginn meðafli. Við höfum verið í stöðugum samskiptum við útgerðirnar í Vestmannaeyjum en því miður hafa þær ekki séð sér fært að taka þátt með okkur í verkefninu í sumar. Það er dýrt fyrir okkur að leigja hafrannsóknaskip til þessara verkefna og við vorum að vonast til þess að fá einhverja útgerð til þess að halda áfram tilraunaveiðunum. Við biðlum því núna til Hafró að fá skip frá þeim en við skiljum að það er gríðarlega kostnaðarsamt og við sjálfir lifum eiginlega bara á styrkjafé. Í sumar ætlum við því að stunda vöruþróun á þeim afla sem við eigum frá því í fyrra í frystigeymslum hérna úti í Eyjum. En það hefur enginn verið til búinn að koma með okkur í veiðar með fullvöxnu veiðar færi núna í sumar,“ segir Hörður.
Veiðar og vinnsla á 59.000 tonnum gætu skilað 59 milljörðum í útflutningstekjur
Hörður segir gríðarleg tæki færi í veiðum og vinnslu á rauðátu við Ísland. Sem fyrr segir metur Hafrannsóknastofnun að í stofninum séu um tíu milljónir tonna og að óhætt sé að veiða um 59 þúsund tonn á ári án þess að það sjái nokkuð á stofninum. Miðað við milljarð fyrir vinnslu á 1.000 veiddum tonnum gætu þarna legið útflutningsverðmæti upp á 59 milljarða króna ef allt gengi eins og í sögu. „Afurðirnar eru gríðarlega verðmætar. Þar má nefna karotín, þ.e.a.s. litarefnið í átunni sem nýtt er m.a. í fóður fyrir lax og í lyf. Svo er í átunni verðmætt lýsi. Ég hef áður sagt að þetta sé langhlaup. En það er í raun ótrúlegt að engin útgerð sjái sér hag í því að taka þátt í verkefninu. Þetta er auðlind sem er ekki kvótabundin og forstjóri Hafrannsóknastofnunar hefur sagt í mín eyru að það sé með ólíkindum að menn séu ekki að slást um þetta. En það tekur auðvitað sinn tíma að ná tökum á veiðum á nýrri tegund en tækifærin eru mikil. Hér í Eyjum er meira að segja verksmiðja sem getur unnið átuna,“ segir Hörður og vísar þar til Löngu þar sem nú er unnið kollagen úr fiskroði.
Þekkingarsetrið hefur verið í góðu samstarfi við norskt fyrirtæki sem stundar veiðar og vinnslu á rauðátu. Þangað hefur líka verið send rauðáta úr tilraunaveiðum Þekkingarsetursins og segja Norðmennirnir það mun betri vöru með meira lýsisinnihaldi en fáist við Noreg. Sjálfir hafa Norðmenn stundað veiðar og vinnslu á rauðátu frá árinu 1959.
„Þeir hafa lýst vilja til að kaupa allt að 2.000 tonn á ári af okkur. Þessar veiðar, sem fara fram að sumri, færu vel með öðrum uppsjávarveiðum á öðrum tímabilum. Okkur hefur tekist að staðsetja rauðátuna með gervihnattatækni og bergmálsmælingum. Í fyrra var hún að veiðast í Kantinum austan við Eyjar svo það er stutt að fara. Auk þess er togað einungis á einni sjómílu svo það er lítil olíueyðsla. Í fyrra fengum við um 500 kg á klukkutímann og bara tímaspursmál hvenær menn ná betri tökum á þessu. Þótt það verði ekki veidd og unnin nema 20.000 tonn af rauðátu þýðir það 20 milljarða í útflutnings verðmætum,“ segir Hörður.