Góð rækjuveiði hefur verið í Jökuldjúpinu undanfarna daga og vikur. Langt er síðan einhver veiði var á þessum slóðum. Fiskveiðiárið 2000/2001 veiddust þar um 1.160 tonn en síðan þá hefur veiðin verið frá engu og upp í 18 tonn á fiskveiðiári, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Fimm og upp í tíu bátar hafa verið í Jökuldjúpi síðasta hálfa mánuðinn. Þokkaleg veiði hefur einnig verið í Kolluálnum, að því er Gísli Jón Kristjánsson, skipstjóri á Öldunni ÍS, segir í samtali við Fiskifréttir.
Aldan ÍS er um 60 brúttótonna bátur og segir Gísli að þeir hafi fengið 100 og upp í 200 kíló á togtímann. Stærri bátarnir hafi fengið upp í 300 kíló á togtímann. Veiði á sólarhring væri 2 og upp í 4 tonn.
Mælingar Hafrannsóknastofnunar á rækju á grunnslóð við Snæfellsnes fóru fram 29. apríl til 3. maí. síðastliðinn. Rækjan var mæld á þremur svæðum; í Kolluáli, í sunnanverðum Breiðafirði og í Jökuldjúpi. Vísitalan er heldur lægri en í fyrra á svæðinu í heild en þó mældist meira af rækju í Jökuldjúpi. „Rækjan í Jökuldjúpi hefur farið stigvaxandi undanfarin ár,“ segir Ingibjörg G. Jónsdóttir, rækjusérfræðingur Hafrannsóknastofnunar.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.