Alaskamenn hafa hlotið vottun óháðs vottunaraðila á stjórnun veiða á Alaskaufsa samkvæmt ströngustu FAO-ISO kröfum um ábyrga fiskveiðistjórnun. Hér er um að ræða vottun byggða á sama grunni og vottun á stjórn þorskveiða Íslendinga í desember 2010 byggir á. Frá þessu er sagt í frétt á vefnum www.fis.com.
Vottun þessi staðfestir að veiðarnar eru í fullu samræmi við siðareglur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um ábyrgar fiskveiðar og leiðbeiningarreglur sama aðila um vottun fiskveiða.
Í frétt á vef LÍÚ segir að þessi áfangi sé fagnaðarefni fyrir íslenskan sjávarútveg þar sem Alaskamenn hafa valið að fara sömu leið í vottunarmálum og Íslendingar. Vitað sé að fleiri fiskveiðiþjóðir undirbúi að fara sömu leið. Með þessu móti verði tryggt að valkostir bjóðist varðandi vottun fiskveiða.
Í fréttinni er haft eftir Randy Rice hjá markaðsráði sjávarafurða í Alaska (Alaska Seafood Marketing Institute (ASMI)) að Alaskaufsi hafi lengi notið alþjóðlegrar viðurkenningar sem fyrirmynd um sjálfbærar veiðar og vottun þessi sé frekari staðfesting á sterkri stöðu ábyrgrar fiskveiðistjórnunar í Alaska. Hann bendir ennfremur á að vottun byggð á kröfum FAO feli ekki í sér mikinn kostnað þar sem ekki eru innheimt leyfisgjöld vegna notkunar merkis (e. logo licensing fees). Þetta geri þeim kleift að bjóða viðskiptavinum, og þar með einnig neytendum, trúverðugan valkost í vottun á viðráðanlegu verði.
Hér er um miklar fiskveiðar að ræða enda var meðal ársaflinn undanfarinn áratug u.þ.b. 1,3 milljónir tonna.