Íslenskum skipum verður heimilt að veiða 89.817 tonn af norsk-íslenskri síld á árinu 2013 samkvæmt nýlegri ákvörðun atvinnuvegaráðuneytisins. Þar af má veiða 15.873 tonn í norsku lögsögunni.

Á árinu 2012 nam úthlutun kvóta í norsk-íslenskri síld til íslenskra skipa um 120 þúsund tonnum. Hér er því um töluverðan samdrátt að ræða á milli ára. Síldina má veiða sem fyrr á Íslandsmiðum, í lögsögu Færeyja, við Jan Mayen, í lögsögu Noregs, í lögsögu Svalbarða og á alþjóðlegu hafsvæði.

Áður en kemur til úthlutunar á grundvelli aflahlutdeildar dragast frá 2.000 tonn vegna meðafla og 2.515 tonn vegna framlags í ýmsa potta. Samtals fara um 4.500 tonn í þessa liði. Þá bætast við 833 tonn vegna ársins 2012 á grundvell tvíhliða samnings Íslands og Noregs. Í heild koma því 86.135 tonn til úthlutunar til skipa á grundvelli aflahlutdeildar.