Að minnsta kosti sex loðnuskip eru að veiðum vestan við Reykjanes í blíðskaparveðri. Loðnan er nú komin í það ástand sem flestir hafa beðið eftir, það er að hrognin eru farin að losna í henni og hún því hæf til kreistingar.
Helgi Valdimarsson skipstjóri á Ísleifi VE sagði í samtali við Fiskifréttir nú upp úr hádeginu að nokkuð virtist vera af loðnu á svæðinu. Þetta væri fínasta loðna og hrognafyllingin væri á bilinu 25-27%. Auk Ísleifs VE eru á svæðinu Kap VE, Heimaey VE, Álsey VE, Víkingur AK og Ásgrímur Halldórsson SF.
Að sögn Helga er önnur loðnuganga við Vestmannaeyjar. Ástæðan fyrir því að ekki er veitt úr þeirri göngu er sú að loðnan þar er ekki komin í kreistingarástand, en hún er hins vegar of langt gengin til þess að hún sé heppileg til frystingar.