Ísland er á mörkum tveggja loftslagsbelta, tempraða beltisins og heimskautasvæðanna og hér ríkir kaldtemprað úthafsloftslag. Veðrið við Ísland er síbreytilegt og aðeins hægt að spá fyrir um það nokkra daga fram í tímann.
Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu RE 1, man tímana tvenna í þessum efnum. Friðleifur hóf sjómennsku á togurum fyrir 42 árum.
„Þegar ég var að byrja voru það bara fréttirnar í Ríkisútvarpinu af veðri sem komu frá Veðurstofunni. Við náðum þessum fréttum á langbylgjunni en veðurspárnar voru ekki alltaf áreiðanlegar eins og þær eru núna, langt því frá. Það kom nú fyrir að við þurftum að hverfa á braut þegar við vorum komnir á miðin og skyndilega brast á með illviðri. Það var reyndar ekki oft en það kom fyrir,“ segir Friðleifur.
Hann segir að þetta hafi farið að þróast til betri vegar á níunda áratugnum þegar komið var fyrir í skipum móttakari fyrir veðurkort sem unnin voru á evrópskum veðurstofum. Þetta breytti mörgu.
„En þetta eru auðvitað bara veðurspár og við verðum að hafa það í huga. En gæðin þeirra hafa aukist til muna enda allt gert núna með nýrri tækni. Tækninni hefur fleygt fram á þessu sviði eins og á öðrum sviðum. Ég get samt ekki haldið því fram að menn geti alveg fullkomlega reitt sig á veðurspár og planað veiðiferðir fram í tímann á grunni þeirra. Ef ég ætti að nefna eitthvað hlutfall þá myndi ég halda að í 90% tilvika sé fullkomlega hægt að reiða sig á veðurspár. Eins og við vitum getum lægðirnar breyst á svipstundu á okkar slóðum.“
Miklar framfarir í spám
Aðspurður um hvort honum finnist veðurfarið hafa tekið breytingum á síðustu árum með öflugri veðrum og lengri brælutímabilum segir Friðleifur að erfitt sé að henda reiður á því. Brælurnar hafi vissulega verið öflugar líka hér á árum áður. En það sem hafi líka breyst er að skipin eru orðin mun stærri en þau voru þegar hann var að byrja til sjós. Þau þoli að sjálfsögðu mun betur allan ólgusjó.
2016 var 14 tonna þung ofurtölva dönsku veðurstofunnar komin í fullan rekstur hjá Veðurstofu Íslands. Um var að ræða langöflugustu tölvu sem sett hefur verið upp hérlendis og getur hún framkvæmt 700.000 milljarða reikniaðgerða á sekúndu fulluppfærð - sem samsvarar getu 25.000 meðal fartölva. Um er að ræða tvær tölvur, Thor og Freyju, og fulluppsettar kostuðu þær um einn milljarð króna sem greiddur var af dönsku veðurstofunni. Friðleifur segir að veðurspár fyrir íslenska fiskiskipaflotann hafi tekið miklum framförum við þetta.
- Friðleifur Einarsson, skipstjóri. Mynd/Eggert Jóhannesson/Morgunblaðið
„Núna tökum við veðrið víðar. Við notum nokkrar veðurspár og berum þær svo saman. Við tökum eina veðurspá frá franskri veðurstofu inn á fiskveiðitölvuna og hún hefur reynst okkur mjög vel. Við erum líka með spár frá Noregi auk þeirra íslensku og með því að bera þær allar saman fáum við glögga tilfinningu fyrir því hvernig veðrið verður. Það vantar ekkert upp á upplýsingar í þessa veru en það sem vantar frá Veðurstofunni og annars staðar frá eru betri ískort. Útbreiðsla hafíss fást með gervitungamyndum en það er hörgull á því að nægilega nákvæmar og tíðar upplýsingar berist fiskiskipaflotanum. Útbreiðsla hafíss er svo fljót að breytast. Ég hef auðvitað lent í hafís án þess að það hafi sett mikið strik í reikninginn en hafísinn getur auðvitað verið stórhættulegur skipum."
Ósamanburðarhæft
Friðleifur segir að ekki sé hægt að líkja ástandi öryggismála sjómanna saman þegar hann var að hefja sinn sjómennskuferil og hvernig hátt til núna. Slysavarnaskóli sjómanna hafi lyft Grettistaki og öllum sjómönnum ber skylda til þess að sækja þar reglulega námskeið.
„Þetta er svart og hvítt. Þegar ég var að byrja voru sjómenn á dekki hjálmlausir. Nú eru öryggisbúnaður af öllu tagi en stóra breytingin er samt sú að nú eru allir sjómenn með hugann við öryggismál. Það hefur orðið fullkomin viðhorfsbreyting á þessu svið, þökk sé Slysavarnaskólanum,“ segir Friðleifur.
Umfjöllunin birtist upphaflega í öryggisblaði Fiskifrétta 20. janúar sl.
- Íslenskir sjómenn þurfa stóran hluta úr árinu að glíma við válynd veður. Aðsend mynd