„Það er ekkert mælingarveður í þessari viku og spáin hrikalega slæm. Við erum að vona að veðurfræðingar hafi rangt fyrir sér og það eigi eftir að rætast úr dögunum frá laugardegi og eitthvað áfram,“ sagði Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnun í samtali við Fiskifréttir í dag.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson bíður færis að hefja mælingu og stefnt er að því að skipið haldi úr höfn á föstudag, en það gæti þó breyst ef veður breytist.

Grænlenska skipið Polar Amaroq mun aðstoða áfram við leit og mælingu. Skipið er nú að ná í nótina á Eskifirði og er ráðgert að það haldi út á miðnætti í nótt. Að sögn Þorsteins byrjar Polar Amaroq að leita í kantinum austur af Langanesi og mun fylgja honum meðan veður leyfir og skoði svo svæðið í kringum Grímsey. Fréttir hafa borist af því frá Grímseyingum að loðna sé kominn í fisk þar og að sést hafi lóðningar.

Þorsteinn sagði að helst hefðu þeir viljað byrja á Árna vestur í Grænlandssundi en þar sem veður lægir seinast þar um slóðir gæti svo farið að byrja yrði eitthvað austar. Ísinn í Grænlandssundi hefur nú hopað þannig að hann verður ekki til trafala við leit og mælingu.