Fisktækniskóli Íslands og Arnarlax hafa hafið samstarf um kennslu í fiskeldisfræðum. Reiknað er með að 15-20 starfsmenn fyrirtækisins leggi stund á námið sem mun fara fram á Bíldudal og að hluta með fjarnámi. Vonir standa til að fleiri fiskeldisfyrirtæki sigli í kjölfarið.

Fisktækniskólinn hefur um margra ára skeið boðið upp á tveggja ára nám á framhaldsskólastigi í fisktækninám. Inni í því námi er svokölluð fiskeldislína. Einnig býður skólinn upp á fiskeldisnám á þriðja ári fyrir þá sem hafa lokið tveggja ára fisktækninámi.

Ígildi einnar annar

„Fyrir nokkru kom upp hugmynd um samstarf við Arnarlax. Í framhaldinu skipulögðum við nám sem er sniðið að þörfum fyrirtækisins. Skipulagið felur ennfremur í sér að starfsmenn Arnarlax sem fara í þetta nám fara í raunfærnimat hjá okkur og geta fengið þær einingar sem fiskeldisnámið gefur þeim metnar inn í almenna fisktækninámið. Þessar einingar eru ígildi einnar annar og eiga þessir nemendur þá lítið eftir til þess að ljúka tveggja ára náminu,“ segir Klemenz Sæmundsson verkefnisstjóri hjá Fisktækniskóla Íslands.

Háskólinn á Hólum býður upp á nám í fiskeldisfræði á háskólastigi en til þess að leggja stund á það þurfa nemendur fyrst að hafa lokið framhaldsskólaprófi. Nám í fiskeldi hjá Fisktækniskólanum gæti því nýst þeim starfsmönnum Arnarlax sem hyggjast síðar fara í framhaldsnám á Hólum í fiskeldisfræði.

80 dag- og fjarnemendur eru núna í Fisktækniskólanum. Skólinn býður upp á fisktækninám til tveggja ára og þriðja árs nám í Marel vinnslutækni, fiskeldi og gæðastjórnun. Fisktækniskólinn annast líka alfarið kennslu í netagerð og er einn um það í landinu. Nemendur sem ljúka fisktækninámi hækka um fimm launaflokka samkvæmt kjarasamningum.

Opinn fyrir frekara samstarfi

Klemenz segir að mikil þörf hafi verið fyrir nám í fiskeldi og þörfin fari vaxandi.

„Fiskeldi í landinu vex mjög hratt og hefur tvöfaldast milli ára. Þetta kallar á fleiri menntaða starfsmenn. Við höfum áður verið með grunnnámskeið fyrir starfsmenn Arnarlax og kjaratengd námskeið. Upp úr þessum jarðvegi sprettur samstarf Fisktækniskólans og Arnarlax. Skólinn er jafnframt opinn fyrir samstarfi af svipuðu tagi með öðrum fiskeldisfyrirtækjum. Við höfum þegar átt sameiginlegan fund með nokkrum aðilum í fiskeldi. Greinin telur mikla þörf fyrir aukna menntun starfsmanna sinna. Störf í fiskeldi ekki síður en hefðbundnum veiðum og vinnslu breytast mjög hratt. Þau verða sérhæfari og tæknivæddari og kalla á sérhæft starfsfólk,“ segir Klemenz.