Áhugi á veiðum á skollakoppi aukist undanfarin ár hér á Íslandi. Að sögn Guðrúnar G. Þórarinsdóttur, sjávarlíffræðings á Hafrannsóknastofnun, byrjuðu veiðarnar raunar smátt strax árið 1984 þegar kafarar söfnuðu skollakoppi og sendu prufur erlendis. Það skilaði þó engum árangri.

„Árið 1993 hófust síðan eiginlegar veiðar með plógum en ástæðan fyrir því var að markaðir í Japan opnuðust á þessum tíma fyrir skollakoppi frá Norður-Atlantshafi vegna ofveiða þar syðra.“

Þá hófust veiðar bæði hér á landi og á austurströnd Bandaríkjanna og Kanada og hélst útflutningur út árið 1996 er veiðar stöðvuðust.

„Mestur afli íslendinga var árið 1994, 1500 tonn. Veitt var víða um landið en langmest í Breiðafirði. Einnig var veitt í Ísafjarðardjúpi, Húnaflóa, Eyjafirði og við Austurland.“

Skollakoppur nefnist einnig grænígull en liturinn getur verið mismunandi. MYND/Svanhildur Egilsdóttir
Skollakoppur nefnist einnig grænígull en liturinn getur verið mismunandi. MYND/Svanhildur Egilsdóttir

  • Skollakoppur nefnist einnig grænígull en liturinn getur verið mismunandi. MYND/Svanhildur Egilsdóttir

Á þessum tíma voru alls 20 vinnslur komnar með starfsemi víðsvegar um landið, en árunum 1997–2003 lögðust veiðarnar að mestu niður.

„Þótt samdráttur í afla skýrist að verulegu leyti af versnandi markaðsaðstæðum, er mjög líklegt að um ofveiði hafi einnig verið að ræða,“ segir Guðrún. „Á þessum árum voru afladagbækur ekki það fullkonmar að hægt sé að skoða afla á sóknareiningu, aðeins landaðan afla.“

Aftur til veiða

Hún segir ígulkeraveiðar svo hafa farið af stað aftur árið 2004 í Breiðafirði. Þar hafi einn bátur verið að veiðum og landað innan við 50 tonn þar til árið 2007 að afli náði 134 tonnum. Síðan hafi aflinn úr Breiðafirði verið á bilinu 130–340 tonn.

„Veiðiráðgjöf, byggð á niðurstöðum rannsókna í Breiðafirði 2015-2018 var veitt í fyrsta sinn fyrir svæðið árið 2016 en fyrir þann tíma voru veiðar frjálsar um allt land. Aflmark var ákveðið fyrir Breiðafjörð en veiðar utan þess svæðis voru frjálsar. Árið 2019 voru frekari takmarkanir settar varðandi veiðarnar og var nú krafist tilraunaveiðileyfis fyrir veiðar utan aflamarkssvæðis í Breiðafirði enn fremur var þess krafist að eftirlitsmaður frá Fiskistofu eða Hafrannsóknstofnun væri um borð að fengnu slíku tilraunaleyfi til að sjá um mælingar, skrá meðafla og takamyndir.“

Misgóð veiðisvæði

Síðan 2019 hefur töluverð vitneskja fengist með þessum tilraunaveiðum um útbreiðslu og magn ígulkera á svæðum víða um landið. Hafrannsóknastofnun hefur gefið út niðurstöður um útbreiðslu skollakopps í Ísafjarðadjúpi, Húnaflóa, Eyjafirði og Skagafirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Guðrún er höfundur þeirra flestra ásamt Steinunni Hilmu Ólafsdóttur.

Guðrún G. Þórarinsdóttir hefur rannsakað útbreiðslu ígulkera. MYND/Aðsend
Guðrún G. Þórarinsdóttir hefur rannsakað útbreiðslu ígulkera. MYND/Aðsend

  • Guðrún G. Þórarinsdóttir hefur rannsakað útbreiðslu ígulkera. MYND/Aðsend

„Þetta eru misgóð veiðisvæði þar sem Húnaflói og Reyðarfjörður koma best út. Töluvert magn er af nýtanlegum ígulkerum á svæðunum en í báðum tilfellum eru kóralþörungasvæði innan svæðanna sem ekki skal veiða á.“

Ráðist á þaraskóg

Guðrún segir það gerast einstaka sinnum að ígulkerum fjölgi mikið á afmörkuðum svæðum og breyti þá atferli sínu.

„Þau mynda þétta breiðfylkingu meðfram ytri jaðri þaraskógarins og bíta niður allan gróður sem verður á vegi þeirra. Slíkt henti í lok síðustu aldar í Eyjafirði og voru dýrin þéttust við ytri jaðar þaraskógarins, allt að 120 fullvaxin dýr á hverjum fermetra.“

Fæðuvalstilraunir sýndu að ígulkerin í Eyjafirði vildu helst stórþara en aðrar tegundir á svæðinu voru étnar í mun minni mæli.

„Einnig sáust ígulkerin í Eyjafirði éta botndýr og voru engin botndýr sjáanleg þar sem ígulkerin höfðu farið yfir. Ígulkerin átu sig hægt utan af djúpinu og að landi. Þau dreifðu sér ekki inn á milli þaraplantnanna en héldu sig við ytri jaðar þaraskógarins, sem færðist smám saman í átt að ströndinni.“

Síðan þetta gerðist hefur slíks þaraskógaáts ígulkera ekki orðið vart hérlendis, en Guðrún segir þetta er algengt víða erlendis.