Valka setti fyrir tæpum þremur árum á markað beina- og bitaskurðarvél sem hefur sannað sig á þeim tíma því margir framleiðendur ætla sér að fjárfesta í þessari tækni á næstunni til virðisauka og hagræðingar í vinnslunni.
Alls eru níu skurðarvélar nú seldar og næsta vél – sem einnig verður sýnd á sjávarútvegssýningunni í Brussel á næstu dögum – verður sett upp hjá Sjávariðjunni á Rifi í sumar. Ennfremur hefur verið mikil sala í sjálfvirkri flokkun og pökkun fyrir ferskar afurðir og verður slíkur búnaður settur upp í næsta mánuði hjá HB Granda á Akranesi sem festi kaup á fyrstu skurðarvélinni fyrir þorsk á árinu 2013.
Þetta kemur fram í frétt frá Völku. Þar segir ennfremur að það sé ekki bara landvinnsla sem sýnir skurðarvélinni mikinn áhuga því Valka hafi nú gert tvo samninga um uppsetningar um borð í frystitogara. Annars vegar við norska útgerðarfyrirtækið Ramoen AS sem fær fyrstu vélina um borð í skip afhenta á þessu ári og hins vegar fær íslenskt útgerðarfélag vél afhenta snemma á næsta ári.
Þá hefur vöxtur í sölu kerfa til laxaiðnaðarins aukist mikið. Uppsetning á heildarkerfi fyrir flokkun og pökkun á heilum laxi til Slakteriet AS í Noregi fer fram þessa dagana og þá eru nokkur minni kerfi einnig seld.
Að sögn Helga Hjálmarssonar framkvæmdastjóra Völku hefur sala hjá fyrirtækinu á árinu gengið framar björtustu vonum. Söluaukning á síðasta ári var um 50% og áætlanir gera ráð fyrir mun meiri vexti á þessu ári. Samhliða þessari söluaukningu hefur Valka bætt við sig starfsfólki og gert er ráð fyrir frekari ráðningum á þessu ári.