Stefnt er að því að banna allar fiskveiðar á veiðislóð sem er án efa helgustu fiskimið veraldarsögunnar, nefnilega á Galíleuvatni þar sem Jesús gekk forðum daga.
Ísraelsk stjórnvöld hafa ákveðið að hrinda veiðibanni í framkvæmd vegna stöðugrar ofveiði sem hefur því sem næst útrýmt öllum fiski í vatninu. Hingað til hefur lítil stjórn verið á veiðunum. Of margir sjómenn hafa veitt of mikið af of smáum fiski í netin. Gert er ráð fyrir að bannið vari í tvö ár og eftir það hjarnar fiskurinn væntanlega við.
Galíleuvatn er stærsta vatn í Ísrael og um 200 fiskimenn hafa stundað þar veiðar hin seinni ár. Þeir veiða aðallega beitarfisk sem heimamenn kalla að sjálfsögðu Pétursfisk.
Í guðspjöllunum er þess getið að Jesús hafi hitt lærisveina sína Jakob, Andrés, Jóhannes og Pétur í fyrsta sinn við Galíleuvatn. Jesús gekk á vatninu og þarna mettaði hann fimm þúsund manns með fimm brauðum og tveimur fiskum.
Heimild: www.fishupdate.com