Varðskip Landhelgisgæslunnar kom kl. 09:00 í morgun að grænlenska togbátnum Qavak þar sem hann var vélarvana um 200 sjómílur suð-vestur af Reykjanesi með fjóra menn í áhöfn. Varðskipið er nú á leið til Íslands með bátinn í togi.
Báturinn var á leið til Danmerkur þegar vél hans bilaði í gærmorgun. Var þá send beiðni um aðstoð til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar, í gegnum flutningaskipið Naja Arctica sem kom Qavak til aðstoðar við bilunina. Var flutningaskipið um kyrrt hjá togbátnum til kl. 07:00 í morgun eða þar til íslenska varðskipið kom á svæðið. Höfðu þá skipin rekið um 30 sjómílur í norð-vestur. Togskipið Qavak er um 200 tonn að þyngd og 22 metra langur, í eigu Polar Seafood á Grænlandi.
Að sögn skipherra á Ægi var dráttarlínu skotið yfir í Qavak kl. 09:17 í morgun og gekk aðgerðin vel. Áhöfn skipsins er í góðu ásigkomulagi, veður á svæðinu, 20-25 hnútar (12 m/sek) talsverður sjór og 4-6 metra ölduhæð. Ágæt veðurspá er framundan en búist er við meðvindi á leið til Íslands. Ef áætlun stenst reiknar varðskipið með að koma til hafnar á Íslandi snemma á miðvikudagsmorgun, að því er segir í frétt frá Gæslunni.