Landhelgisgæslan og Fáfnir Offshore hf undirrituðu í dag fimm mánaða samning um leigu á varðskipinu Tý frá byrjun maí n.k. Skipið verður leigt til eftirlits- og björgunarstarfa sem og almennra löggæslu- og þjónustustarfa fyrir Sýslumanninn á Svalbarða með heimahöfn í Longerbyen. Sýslumaðurinn á Svalbarða fer með yfirstjórn allrar stjórnsýslu sem lýtur að aðkomu norska ríkisins á Svalbarða, þar með talið löggæslumál til sjós og lands, leit og björgun og umhverfismál.
Í frétt á vef Landhelgisgæslunnar segir að stofnunin hafi leitast við að koma eldri varðskipum í tímabundin verkefni þar sem ekki sé fyrir hendi fjármagn til að halda úti rekstri þeirra hér við land eins og á standi nú. Mun þessi samningur styrkja rekstur Landhelgisgæslunnar, ekki hvað síst útgerð varðskipsins Þórs og þar með efla möguleika varðandi leit og björgun hér á heimaslóðum.
Eins og áður segir er um tímabundna leigu að ræða þar til nýtt skip Fáfnis sem nú er í smíðum í Noregi verður fullbúið, en það skip er fyrsta sérhæfða skip Íslendinga til að þjónusta olíuborpalla og er sérstaklega hannað til að sinna verkefnum á norðlægum slóðum. Fyrirtækið Fáfnir Offshore hefur gert samning við Sýslumanninn á Svalbarða um gæsluverkefni í kringum eyjarnar næstu tíu árin og mun nýta hið nýja skip til þeirra verka.