Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 05:56 beiðni í morgun um aðstoð frá Gísla GK-80 sem lent hafði í árekstri við annan bát úti af Vestfjörðum. Tveir menn voru um borð. Við áreksturinn kom leki að Gísla GK sem jókst hratt svo dælur höfðu ekki undan.

Varðskipið Ægir sem statt var skammt frá hélt strax áleiðis á staðinn og sendi varðskipið léttabát sinn með dælur til Gísla. Varðskipsmenn veittu skipverjum á Gísla aðstoð við að dæla sjó úr bátnum og gekk það ágætlega. Varðskipið Ægir fylgir nú Gísla áleiðis til Tálknafjarðar. Er áætluð koma þangað fyrir klukkan tíu, að því er segir á vef Gæslunnar.