Ólafur Marteinsson, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að ekki megi byggja kröfur um hækkun veiðigjalda á „skattheimtuofsa“ eins og hann orðar það.

„Álagning veiðigjalds er talin munu minnka verga landsframleiðslu og þar með ráðstöfunar tekjur landsmanna. Álagning eða hækkun veiðigjalds er talin munu auka skatttekjur hins opinbera í upphafi en minnka þær er fram í sækir. Samneyslan mun þá einnig þurfa að minnka,“ segir í greinargerð Hagrannsókna sf.

Rýri skilvirkni í hagkerfinu

Greinargerðin, sem var unnin fyrir SFS í tilefni af tillögum matvælaráðherra um hækkun veiðigjalda, var rædd á fundi samtakanna á mánudag. Hækkunin felst í því að veiðigjald verði ekki frádráttarbært frá tekjuskatti og að veiðigjald á uppsjávarfiski verði hækkað í 45 prósent af áætluðum hagnaði. Bent er á að veiðigjald sé sérskattur á einn atvinnuveg.

„Álagning þess brenglar ráðstöfun framleiðsluþátta og rýrir skilvirkni í hagkerfinu,“ segir í greinargerðinni. Það hafi verið afstaða svokallaðrar Auðlindanefndar að skaðlegt væri að mismuna atvinnuveg um í greiðslum fyrir afnot af náttúruauðlindum. Sérstakt afnotagjald fyrir auðlindanotkun sé einskorðað við fiskveiðar í sjó. Veiðigjaldið feli því í sér mismunun milli atvinnuvega og þar með hagræna brenglun atvinnulífsins.

Kröfur byggi á skynsemi

„Það er oft sem við heyrum að það gangi svo vel í sjávarútvegi að hann geti alveg borgað meira auðlindagjald, og meira og jafnvel miklu meira ef því er að skipta. Þetta lætur eins og þýð tónlist í eyrum margra en heppilegra er að slíkar kröfur byggi á einhverri skynsemi en ekki bara eingöngu á einhverjum skattheimtuofsa,“ sagði Ólafur Marteinsson, formaður SFS, á fundinum.

Kvað Ólafur löngu kominn tíma á umræðu um veiðigjaldið sem í dag væri 33 prósent af hagnaði af veiðum.

Spilli ekki samkeppnishæfninni af vangá

„En veiðigjaldið er bara eitt af þeim gjöldum og sköttum sem útgerðir þurfa að greiða, það má ekki gleyma tekjuskatti, tryggingagjaldi, kolefnisgjaldi og ýmsu fleiru sem leggst á útgerðir landsins, stórt og smátt,“ benti Ólafur á. Takmörk væru fyrir því hve mikið greinin gæti staðið af sér.

Formaður SFS minnti á að íslenskur sjávarútvegur keppi á heimsmarkaði við lægri laun, lægri gjöld og jafnvel niður greiðslur. „Við skulum horfa til þess sem við getum haft áhrif á og reyna að nálgast það verkefni að spilla ekki samkeppnishæfni okkar af vangá.“