Hrafni GK, öðru af tveimur línuskipum Þorbjarnar hf. í Grindavík, var siglt í lok vetrarvertíðar til Belgíu til niðurrifs. Skipið var smíðað árið 1974 og var því komið til ára sinna. Verið er að undirbúa hjá skipasmíðastöðinni Armon í Gijón á Spáni að hefja smíði á nýjum 58 metra löngum og 13,6 metra breiðum ísfisktogara fyrir Þorbjörn sem væntanlegur er inn í rekstur fyrirtækisins á fyrri hluta árs 2024.

Skipið sem nú er á leið í pottinn í Belgíu hét upphaflega Gullberg VE og var smíðað hjá Baatservice Verft í Mandal í Noreg árið 1974. Kaupandi skipsins var Ufsaberg hf. í Vestmannaeyjum. Það er 48,5 metrar á lengd og 8,2 metrar á breidd.

Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar.
Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar.

Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar, segir að Hrafn GK hafi þjónað fyrirtækinu í rúm 25 ár en nú sé komið að leiðarlokum. Hann hafi veitt vel öll þessi ár og verið í raun ljómandi gott skip.

„En hann er kominn til ára sinna. Hann er í hópi þeirra skipa sem eru smíðuð á þeim tíma sem veiðar eru að hefjast á loðnu fyrir alvöru. Hrafn GK var meira að segja byggður sem loðnuskip og var eitt af þeim fyrstu sem var sérstaklega smíðað fyrir loðnuveiðar. Hann ber það ekki með sér núna þegar hann er borinn saman við nýju uppsjávarskipin. Aðstæður fyrir mannskap í þessum skipum var allt annar og síðri en menn eiga að venjast í dag. Það er þess vegna komið að endurnýja þessi skip svo sjómennirnir geti fylgt þeirri þróun sem annars staðar hefur orðið í samfélaginu,“ segir Gunnar.

Vilja línufisk en ekki borga

Þorbjörn gerði áður út fjögur línuskip en þeim hefur nú fækkað niður í eitt, Valdimar GK. Gunnar segir fyrirtækið ekki lengur leggja áherslu á línuveiðar en það geri út eitt línuskip og það gangi vel.

„Það vilja allir línufisk en fæstir vilja borga það verð fyrir hann sem kostar að sækja hann. Línuveiðar eru dýrara útgerðarform en skilar líka langbesta hráefninu. Þess vegna finnst okkur það skjóta dálítið skökku við að menn vilja að sjálfsögðu helst fá þennan fisk en þeir vilja borga það sama fyrir hann og annan fisk.“

Gunnar segir það líklega ekki koma að sök þótt Hrafn GK hverfi nú út flota Þorbjarnar því reiknað sé með að þorskkvótinn dragist eitthvað saman fyrir næsta fiskveiðiár. Nýi ísfisktogarinn sem er að fara í smíði á Spáni komist væntanlega í rekstur fiskveiðiárið 2023/2024 og þá verði vonandi staðan önnur hvað heildaraflamark varðar. Nú sé verið að skera niður efnið í nýja skipið og líklega fari smíðin á almennilegt skrið í haust.

Gunnar segir að nýafstaðin vetrarvertíð hafi verið yfir ágætlega meðallagi þrátt fyrir einstaklega erfitt tíðarfar. Vertíðin sýni það skýrt hve skipaflotinn er öflugur og mannskapurinn úrræðagóður. Meiri afli hafi náðst á land en á vertíðinni þar á undan þrátt fyrir allar ógæftirnar.

„En skýringin er líka sú að fiskgengdin hefur verið svo mikil. Það var fiskur út um allan sjó alveg frá því í janúar og er reyndar enn þá. Auðvitað finnst okkur að það mætti taka meira þegar aflast svona vel. En við höfum auðvitað ekki þann grunn sem fiskifræðingarnir hafa til að reikna þetta út frá. Við treystum þeim. Við viljum bara vita aðeins betur hvernig þetta er reiknað og í hverju munurinn liggi í þeirri aðferð sem áður var notuð og þeirri sem er notuð núna.“

Gunnar segir að auk þess sem vel hafi veiðst á vetrarvertíð hafi verðið aldrei verið hærra. Afurðaverð í þorski hefur hækkað um rúm 20% frá því sem það var áður en að heimsfaraldurinn reið yfir. Ég reikna varla með því að það hækki enn frekar en það er ekkert sem bendir til þess að það lækki á næstunni. Það er enn mjög mikil eftirspurn.“