Þorvaldur Gunnlaugsson er einn þeirra smábátasjómanna sem tekur þátt í strandveiðum sumarsins. Hann gerir út frá Reykjavík og segir aðstöðuna þar góða þótt þrengt hafi að á tímabili.

Strandveiðar hófust á mánudag og strax fyrsta daginn voru hátt í 400 bátar komnir með leyfi. Fiskistofa greinir frá því að eftir þennan fyrsta dag hafi um 162 þúsund tonn af óslægðum botnfiski verið komin á land í um 230 löndunum.

Einn þeirra sem verða á strandveiðum í sumar er Þorvaldur Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Smábátafélags Reykjavíkur. Fiskifréttir náðu tali af honum á þriðjudagskvöld þegar tveir dagar voru búnir af vertíðinni. Hann segir að á mánudaginn hafi veiðin gengið vel, en þriðjudagurinn síður.

„Ég fékk mikið af ufsa þarna í restina þannig að það vantaði upp á þorskinn aðeins. Hann var eitthvað svo dökkur sjórinn, ég held hann hafi bara ekki viljað taka. Þetta kemur stundum fyrir. Þá sér maður ekki á krókana og það er ávísun á að manni gangi illa þann daginn.“

Hann segist samt bjartsýnn á sumarið, enda hefur vorið verið gott og bjart yfir þótt dagarnir verði alltaf misjafnir.

Meiri þátttaka

„Maður á aldrei að fara út í neina veiði nema vera fullur bjartsýni,“ segir Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda. „Enda er talsvert meiri þátttaka núna heldur en í fyrra.“

Vissulega þurfi þó að halda áfram lagfæringum á kerfinu.

„Við erum við búnir að vera lengi að jagast í þvi að fá þessu kerfi breytt til hins betra,“ segir Arthur. „Þar stendur upp úr sú krafa að menn geti gengið að því vísu strax í byrjun að þeir fái þessa 48 daga á þessu tímabili. Það hefur ekki enn náðst inn í löggjöf en það eru ekki öll sund lokið enn í þeim efnum. Ef það tekst ekki þá er hætta á því að þessi skammtur sem mönnum er ætlaður að hann dugi ekki allt tímabilið.“

Í ár er þrettánda árið sem strandveiðar eru stundaðar hér við land á því formi sem nú gildir. Fjöldi leyfa hefur allan tímann rokkað á bilinu 6 til 7 hundruð, voru fæst fyrsta árið eða 595 og flest árið 2012 eða 761.

Eins og á síðasta ári verður heimilt að veiða samtals 11.100 tonn af óslægðum botnfiski, þar af allt að 10.000 tonn af þorski, þúsund tonn af ufsa og hundrað tonn af gullkarfa.

Fer vestur á haustin

Þorvaldur gerir bátinn sinn, Ásþór RE, út frá Reykjavík og hefur verið með eigin útgerð í 26 eða 27 ár. Síðast strandveiðikerfið var tekið upp hefur stundum farið á þær á sumrin, þó ekki öll árin, en annars verið á krókaveiðum. Og fer þá gjarnan vestur til Bolungarvíkur á haustin.

„Ég hef yfirleitt hætt á strandveiðum í ágúst og farið vestur þá fram á haust. Það er erfitt að eiga við þetta hérna þegar komið er fram í ágúst.“

Hann segir fínt að gera út frá Reykjavík, þótt töluvert hafi reyndar þrengt að smábátasjómönnum þar á síðustu árum.

„Það var helst þegar túristabransinn var sem mestur, en það er nú aðeins búið að laga þetta núna. Það er komin bryggja við Sjómannasafnið, en það vantar bara fleiri karla. Það verður bara að viðurkennast.“

Heppnir að hafa markað

„Markaðurinn er góður og strákarnir almennilegir að bjarga manni. Við megum bara vera heppnir að hafa þennan markað. Það er enginn markaður í Hafnarfirði, þetta kemur allt hingað með bíl.“

Hann var lengi með aðstöðu í gömlu verbúðunum en ekki lengur.

„Ég ákvað að hætta línuútgerðinni í vetur og það var einn strákur sem tók við verbúðinni af mér. Maður er bara að eldast. Þetta er mikil vinna. Það eru breyttir tímar framundan.“

Á síðasta ári voru gefin út alls 677 leyfi til strandveiða, en af þeim lönduðu þó aðeins 669 bátar afla. Strandveiðiflotinn veiddi 10.756 tonn af þorski og hafði þá fullnýtt heimildir sínar í þorski. Strandveiðar voru af þeim sökum stöðvaðar 20. ágúst, en um miðjan júlí voru heimildir í þorski nær fullnýttar og bætti ráðherra þá 780 tonnum við svo ekki þyrfti að koma til stöðvunar veiðanna strax þá.