Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði 60 tonnum af þorski í Neskaupstað í gær og systurskipið Bergur VE mun landa þar fullfermi í dag. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Birgi þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey í gær og spurði um veður og aflabrögð.

„Við fengum þennan afla á Breiðdalsgrunni og í Hvalbakshalli í vitlausu veðri. Þarna fékkst þorskur, þokkalegur millifiskur og það var ágætis reytingur. Við fórum svo á Gerpisflak og Tangaflak að leita að ýsu en þar var heldur lítið að hafa. Við vorum svo kallaðir inn til löndunar vegna þess að það vantaði fisk til vinnslu. Við förum út strax að löndun lokinni og gerum ráð fyrir heldur leiðinlegu veðri fram á fimmtudag en þá ætti að vera komin blíða. Ætli við reynum ekki fyrst fyrir okkur á Glettinganesflakinu. Það er gert ráð fyrir að við löndum aftur í Neskaupstað á fimmtudaginn,” segir Birgir Þór.

Bergur kom til hafnar í Neskaupstað í morgun og hafði heimasíðan samband við Ragnar Waage Pálmason skipstjóra. „Við vorum í ágætis veiði sunnarlega í Hvalbakshallinu og í Berufjarðarálnum. Þar fékkst þorskur. Síðan enduðum við á Gula teppinu í leit að ýsu en þar fengum við blandaðan afla, ýsu og þorsk. Veðrið var ekki upp á það besta en verst var það á leiðinni frá Eyjum og austur fyrir land. Við fórum frá Eyjum um hádegi á föstudag en vorum ekki komnir á miðin fyrr en á laugardagskvöld. Það tekur venjulega 20 tíma að sigla þessa leið en þarna tók það okkur 32 tíma að sigla á móti veðrinu. Við munum landa í Neskaupstað í dag og höldum síðan til veiða á ný seinni partinn á morgun,” segir Ragnar Waage.