Átján ára skólastúlka í Noregi vann sér inn 70 þúsund krónur norskar á aðeins 16 dögum með því að skera gellur af þorskhausum og selja þær. Launin hennar fyrir þennan stutt tíma samsvara rúmum 1,4 milljónum íslenskra króna.
Stúlkan heitir Mona B. Karlsen og er frá bænum Øksnes. Hún ætlar að nota peningana til að fjármagna skólagöngu sína. Hún segist hafa gellað frá því hún var 12 ára og líti á þetta bæði sem skemmtilegt tómstundagaman og gott tækifæri til að þéna vel á stuttum tíma.
Hefð er fyrir því í Noregi að unglingar fái að hirða gellur af þorskhausum á vertíðinni. Mona B. Karlsen bjóst við því að geta unnið sér inn 50 þúsund krónur að þessu sinni. Þar sem færri unglingar mættu til að gella en áður og nóg hráefni var til staðar náði hún að skera hátt í 2 tonn af gellum sem gáfu henni 1,4 milljónir íslenskra króna í aðra hönd fyrir 16 daga vinnu, eða tæpar 88 þúsund krónur á dag!
Greint er frá þessu í tímariti norskra fisksölusamtaka.