„Við erum að taka okkar fyrstu skref inn á Rússlandsmarkað og um leið að taka þátt í sjávarútvegssýningunni hér í fyrsta sinn. Framundan eru miklar breytingar í Rússlandi í þá átt að meiri landvinnsla verði þar og meiri fullvinnsla á fiskinum,“ segir Ágúst Sigurðarson, markaðsstjóri Valka. Fyrirtækið hefur reyndar samning um uppbyggingu á fyrstu hátæknivæddu bolfiskverksmiðjunni með vatnskurðarvélum og bitaskurði í Rússlandi sem verður í Murmansk.

[email protected]

Það sem drífur þetta áfram núna er svokallaður fjárfestingakvóti rússneskra stjórnvalda. Af um 800.000 tonna kvóta sem fer í sérstakan pott ætlaðan til þess að örva endurnýjun í útgerð og vinnslu fara 40%, eða 320.000 tonn til landvinnslunnar. Þorskvótinn í Barentshafinu er hins vegar ekki nema um 800.000 tonn og þar af eiga Norðmenn tilkall til helmings. 5% af þeim 400.000 tonnum sem Rússar eiga tilkall til fer í fjárfestingapottinn til landvinnslunnar, eða um 20.000 tonn.

Þetta skapar svigrúm fyrir tæknifyrirtæki eins og Völku. Alls fengu um níu landvinnslur í þorski og ýsu á Murmansk- og Arkangelsk-svæðinu úthlutun úr pottinum. Miklar úthlutanir eiga sér einnig stað í austurhéröðuðum Rússlands en Valka hefur ekki beint sjónum sínum að því markaðssvæði enn sem komið er. Þar eru meira unnar ódýrari tegundir eins og Alaskaufsi, síld og aðrar uppsjávartegundir. Einnig veiðist þar mikið af villtum lax þar sem tækjabúnaður frá Völku gæti átt erindi.

Gera út 5 togara

„Við ætlum að skoða þessi mál. Við erum með samning við Murmansk Seafood sem hefur keypt af okkur heildarlausn, þ.e. eitt stykki af verksmiðju. Við erum í samstarfi við fyrirtækið um að púsla verksmiðjunni saman með þáttöku annarra íslenskra fyrirtækja, eins og Skaganum 3X og fleiri fyrirtækjum. Þetta er það verkefni sem komið er lengst af nýjum verksmiðjum í bolfiski. Tækjapakkinn, eða það sem snýr að okkur, hleypur á 12-13 milljónum evra, en heildarfjárfestingin er upp á um 25 milljónir evra. Rússarnir hafa viljað hafa þennan háttinn á þessu, þ.e.a.s. að semja einungis við eitt fyrirtæki um heildarlausnina,“ segir Kristján Rúnar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Völku í Noregi.

Murmansk Seafood gerir út 5 togara og kvótinn þeirra er um 25.000 tonn í þorski. Auk þess fékk fyrirtækið 3.000 tonn úr fjárfestingakvótanum. Það hefur fram til þessa einkum framleitt frystan fisk og unnið 10-15 tonn á dag. 70% af hráefninu sem unnið verður í nýju verksmiðjunni verður uppþíddur fiskur. Fyrirtækið stefnir að því að halda uppi vinnslu sjö daga vikunnar á 25 tonnum af afurðum á hverjum degi. Verið er að reisa verksmiðjuna og verður verksmiðjan klár í vinnslu haustið 2019. Valka hefur þegar hafið hönnun á tækjunum og framleiðsla hefst innan tíðar.

Mörg önnur verkefni eru framundan hjá Völku í Rússlandi en þó ekkert í hendi ennþá.

Tæknilegasta verksmiðja heims

Í vatnskurðarvél Völku er tvöföld myndgreining, þ.e. röntgengreining og þrívíddarmyndgreining sem gefur vinnslunni meiri gögn til að vinna úr við vinnslu á hráefninu. Valka hefur nýlega hafið að afhenda vélar með þrívíðri beinagreiningu og vatnsspíssarnir eru fjórir til fimm og þar af geta þrír þeirra hreyft í þvívíðu plani. Það þýðir að hægt er að skera fiskinn í ýmsum sveigjum og beygjum, í skáskurði, þverskurði og langskurði. Vélin býður því upp á meiri möguleika en aðrar vatnskurðarvélar, að sögn Kristjáns. Vél af þessu tagi kostar eitthvað í námunda við 80 milljónir króna.

„Það var okkur mikil traustyfirlýsing að ná samningi við Samherja. Samherji er alþjóðlegt fyrirtæki og samningur af þessu tagi spyrst að sjálfsögðu út. Við nýtum okkur þetta að sjálfsögðu okkur til framdráttar. Samingurinn við Samherja var sá stærsti sem Valka hefur nokkurn tíma gert. Í tengslum við þetta verkefni vorum við að ljúka við að setja upp tvær línur til viðbótar hjá Útgerðarfélagi Akureyrar og þar með er ÚA komið með þrjár sjálfvirkar línur frá Völku og fljótlega verður þeirri fjórðu bætt við. Við erum líka með samning við Samherja á næsta ári um framleiðslu á því sem verður tæknilegasta bolfiskvinnsla í heimi á Dalvík,“ segir Ágúst.

Norðmenn tækjavæðast

Valka er einnig með fjölmörg verkefni í gangi í Noregi. Ágúst segir að Norðmenn sé nú að tækjavæðast af miklum krafti. Kristján segir að Íslendingar hafi vissulega forskot í þeim efnum en vitundarvakning hafi verið undanfarin ár í Noregi hvað varðar gæðamál. Meira sé veitt á línu og snurvoðarbátarnir margir farnir að ganga frá fiski í kör og jafnvel landa honum lifandi. Laxapeningarnir hafi ratað inn í hvítfiskinn og stutt að baki tækjavæðingu og breytingum í norskum sjávarútvegi. Þannig er laxabransinn drifkraftur í þessum efnum og kemur jafnt með aukið fjármagn inn í útgerð og vinnslu og aðra hugsun. Þeir ætli sér væntanlega að sækja inn á sömu ferskfiskmarkaði og Íslendingar herja á. Þarna sér Valka fyrir sér enn frekari tækifæri.

Valka setti nýlega upp tvær vatnskurðarvélar fyrir fiskibolluverksmiðju í Norður-Noregi sem verður ein tæknivæddasta heims á sínu sviði þegar hún hefur framleiðslu í nóvember. Þá hefur fyrirtækið Gamvik Seafood, sem er í eigu Íslendinganna Alberts Más Eggertssonar og Haralds Árna Haraldssonar, keypt vatnskurðarvélar frá Völku. Stutt er síðan Valka seldi vatnskurðarvél fyrir hvítfisk til Norwegian Fish Company,  fyrirtækis í Norður-Noregi, og Marel seldi fyrirtækinu vél fyrir vinnslu á laxi. Fyrirtækið vinnur eftir svipuðu konsepti og ferskfiskvinnslur á Íslandi.