Útvegsmannafélag Hornafjarðar lýsir yfir miklum áhyggjum af frumvörpum sem nýverið hafa verið lögð fyrir um breytingar á stjórn fiskveiða. Í ályktun frá félagsfundi segir að ekki sjáist að frumvörpin séu sett fram með það að markmiði að styrkja atvinnugreinina og tryggja rekstrarskilyrði sjávarútvegsins til langs tíma, eins og segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Í ályktuninni er minnt á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinn segi að íslenskur sjávarútvegur gegni lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífsins sem framundan væri. ,,Það er alveg ljóst ef þessar tillögur um breytingar á stjórn fiskveiða ná fram að ganga verður íslenskur sjávarútvegur ekki í stakk búinn að standa undir þessum kröfum.

Vald ráðherra til geðþóttaúthlutunar og stóraukning á pottum gerir greinina óhagkvæma og ógjörningur er fyrir fyrirtæki að skipuleggja sig til framtíðar sem veldur því að öll endurnýjun á fiskiskipaflota Íslendinga myndi stöðvast til lengri tíma.

Nýtingarsamningar eru of stuttir og óljóst er í frumvörpunum hvort viðkomandi aðilum sem halda á aflaheimildum í dag njóti forgangs til endurnýjunar á þeim. Framsal verður þrengt verulega, sem tekur mikla hagræðingu úr rekstri fyrirtækja.

Frumvörpin eru illa unnin og engar þjóðhagslegar úttektir hafa verið gerðar á afleiðingum þessara miklu breytinga, hvorki fyrir sveitarfélög né ríkið í heild sinni.

Útvegsmenn á Hornafirði skora á ríkisstjórnarflokkana að draga frumvörpin til baka og koma aftur að þeirri vinnu sem búin var að fara fram á grundvelli sáttanefndar sl. ár þar sem víðtæk sátt náðist um framtíð íslensks sjávarútvegs,“ segir ennfremur í ályktun Útvegsmannafélags Hornafjarðar.