Afli bolfiskskipa Brims á þriðja ársfjórðungi þessa árs var 14 þúsund tonn en var 13 þúsund tonn árið áður. Hagnaður fyrirtækisins á ársfjórðungnum var 19 milljónir evra en var 25 milljónir evra 2023. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir harðna á dalnum í sjávarútvegi þessi misserin. „Niðurskurður á verðmætum tegundum í bolfiski og bann við loðnuveiðum er farin að bíta, við veiðum minna af bolfiskstegundum og tekjur dragast saman. Þá var makrílveiðin lakari en vonir stóðu til. Brim veiddi einungis 65% af aflaheimildum sínum á vertíðinni þetta árið en við vonumst til að geta nýtt eftirstöðvar heimildanna á næsta ári.“
Flutningur heimilda aukinn
Sjávarútvegsfyrirtækjum varð að ósk sinni því í lok nóvember var heimild þeirra til að flytja veiðiheimildir í makríl yfir á næsta ár hækkuð úr 15% í 25%. Útgefinn kvóti fyrir yfirstandandi ár var rúm 130 þúsund tonn en alls veiddust tæp 88 þúsund tonn. Það vantaði því 42 þúsund tonn upp á að útgefinn kvóti næðist en með hækkun heimilda til flutnings yfir á næsta ár bætast rúm 10 þúsund tonn við aflaheimildir næsta árs.
Guðmundur segir að kostnaðarhækkanir hafi haft áhrif á reksturinn hjá Brim sem þýðir að kostnaður við rekstur félagsins jókst. „Hagnaður minnkaði og afkoman af rekstri félagsins var verri á þriðja ársfjórðungnum en í fyrra. Þessi niðurstaða er ekki viðunandi en við sem höfum reynslu af útgerð og glímunni við náttúruöflin vitum að það gengur á ýmsu og sveiflur eru bæði upp og niður. Nú þegar vænta má veðrabrigða í stjórnmálum hér á landi í kjölfar kosninga er það von mín að ný stjórnvöld taki upp öflugt og gott samtal við okkur sem vinnum í íslenskum sjávarútvegi og í framhaldi verði stöðugleiki og aukinn fyrirsjáanleiki í nýtingu auðlinda í sjávarútvegi. Þannig munu skapast meiri verðmæti fyrir samfélagið í heild sinni.“