Vaðandi makríltorfur sjást enn í Breiðafirði að sögn Guðmundar Smára Guðmundssonar, framkvæmdastjóra G.Run hf. í Grundarfirði. Tveggja ára sonarsonur hans fór með afa sínum að veiða í gær og fékk á krókinn feitan makríl, sem vó heil 900 grömm. Algengast er að makríllinn sé 300 til 600 grömm að sögn Guðmundar Smára.
„Það var auðvitað gaman fyrir litla guttann að fá svona stóran makríl en það sem vakti meiri athygli mína var magainnihald makrílsins. Þegar við skoðuðum það kom í ljós heil smásíld. Það er klárlega vísbending um að makríllinn sé ekki aðeins í samkeppni við síldina um æti heldur sæki hann beint í hana við fæðuöflun," segir Guðmundur Smári.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Frá þessu er skýrt á vef LÍÚ.