Mikið magn af makríl er á stóru svæði á Breiðafirðinum samkvæmt upplýsingunum frá Guðbrandi Björgvinssyni sem hefur ásamt syni sínum, verið á skaki á svæðinu í vikunni. „Það er gaman að sjá hvernig sjórinn kraumar á stóru svæði í logninu. Það er útlit fyrir að hér sé gríðarlegt magn af makríl,“ segir Guðbrandur í samtali á heimasíðu LÍÚ .

Veðrið hefur verið með eindæmum gott á þessum slóðum og því mikið líf í firðinum. Þeir feðgar eru á handfærabátnum Arnari öðrum á svæðinu, ásamt fjölda annarra handfærabáta. „Stórþorskurinn er orðinn fullur af makríl. Þetta er hér út um allt," segir Guðbrandur.