Uppsjávarskip Ísfélagsins í Vestmannaeyjum eru að makrílveiðum um 40 sjómílur suður af Vestmannaeyjum þar sem fæst sérstaklega stór og fallegur makríll. Það veldur þó vandræðum að aflinn á það til að vera síldarblandaður og makríll er dreifður. Á sama tíma er stór hluti uppsjávarflotans við veiðar innan lögsögunnar austur af landinu. Í dag hafði verið landað um 17 þúsund tonnum af makríl frá því hann fór að veiðast að nýju í byrjun júlí.
Vestmannaeyjaskipin Sigurður VE, Sighvatur Bjarnason VE og Gullberg VE voru við veiðar suður af Eyjum á „heimamiðum“ í rjómablíðu, eins og Jón Axelsson, skipstjóri á Sigurði VE, orðar það.
„Við erum hérna suður af Sneiðinni. Það er makríll hérna dreifður og á litlum blettum. En það er vandasamt að veiða hann og hafa hann hreinan. Það er dálítið af síld á svæðinu sem meðafli og það truflar dálítið veiðarnar. Við viljum ekki hafa síldina með. En þetta er stór fiskur, 530-540 gramma fiskur og átulaus. Hann fer hratt yfir,“ segir Jón.
Túrinn var þá í raun að hefjast hjá Sigurði VE því í gær hafði hann dælt yfir í Heimaey sem fór í land með 860 tonn af fallegum fiski sem hún landaði í gær.
„Við tókum svo eitt stutt hol áðan til þess að athuga hvort það væri síld í þessu sem reyndist ekki vera. Ég hef fulla trú á því að það verði framhald á þessum veiðum hérna fyrir sunnan land. Makríll er að ganga vestur eftir og það er kominn mikill fiskur inn fyrir línuna okkar þar sem við megum athafna okkur. Það er vaðandi makríll hérna allt í kringum Vestmannaeyjar og þetta er þannig farið að minna á fyrri göngur,“ segir Jón.
Hann bætir við að makrílgöngur hafi verið koma líka úr færeysku lögsögunni inn í þá íslensku fyrir austan land og þar eru Hoffell SU, Víkingur AK, Ísleifur VE, Álsey VE, Margrét EA, Hákon EA, Vilhelm Þorsteinsson EA og Beitir NK nú í veiði. Leiðindaveður hefur þó verið fyrir austan land og tala menn um vetrarveður um hásumar með stífum viðvarandi norðanáttum. Mun betur viðrar fyrir sunnan og stutt í land með aflann fyrir Vestmannaeyjaskipin.
„Það er ólíku saman að jafna að vera við veiðar hérna en að þurfa að fara alla leið austur í Síldarsmugu eftir makrílnum. Vonandi getum við unnið eitthvað hérna áfram,“ segir Jón.