Norska laxeldisfyrirtækið Grieg NL hefur gert fimm ára samning við Stofnfisk um 22 milljónir geldhrogna sem notaðar verða í nýrri eldisstöð á Nýfundnalandi.

Stofnfiskur hefur árlega selt nokkrar milljónir hrogna til Noregs og áunnið sér traust þarlendra, sem varð til þess að þessi samningur varð að veruleika.

„Við höfum verið að þróa þessa vörulínu til Noregs,“ segir Jónas Jónasson framkvæmdastjóri Stofnfisks. „Það eru ákveðin fyrirtæki í Noregi sem hafa fengið auka fiskeldisleyfi út á það að nota geldfisk. Við höfum verið að senda þangað út á hverju ári einhverjar milljónir hrogna og í framhaldi af því kemur upp þessi hugmynd hjá Grieg.“

Grieg er að hefja laxeldi á Nýfundnalandi en þar gilda strangar reglur um laxeldi þar sem umhverfissjónarmið vega þungt.

„Það er sett sem skilyrði að nota geldfiska á þessu svæði á Nýfundnalandi því fyrir er eldi þar sem notaður er fjór lax til eldisins,“ segir Jónas. „Þeir leita þá til okkar. Þeir vita að við getum framleitt þetta og vilja láta okkur sjá um þetta í sinni uppbyggingu.“

Samningurinn er um 22 milljónir hrogna sem flutt verða til Nýfundnalands á fimm ára tímabili, frá 2019 til 2024. Allt er þetta framleitt hér heima í eldisstöðvum Stofnfisks og flutt út með flugi. Þetta magn af hrognum ætti að sögn Jónasar að gefa af sér um 40-50 þúsund tonn af fiski.

„Þetta nær yfir fimm ár, þannig að þetta er eitthvað fimm til tíu prósent af ársframleiðslunni hjá okkur. En það sem fylgir þessu er ákveðin viðurkenning fyrir okkur hjá Stofnfiski vegna þess að okkar laxastofn er svo heilbrigður. Hann er allur alinn á landi og laus við sjúkdóma sem eru þekktir í eldi annars staðar. Þess vegna vilja þeir gjarnan kaupa hjá okkur.“

Rannsóknir á geldfiski
Hjá Stofnfiski eru einnig að fara af stað miklar rannsóknir geldfiskum við íslenskar aðstæðu í samvinnu við Hafrannsóknarstofnunina og innlend laxeldisfyrirtæki.

„Það er allt á tilraunastigi en við höfum fengið úthlutað styrk frá Umhverfissjóði fiskeldis til rannsókna á því hvort geldstofnar henti við íslenskar aðstæður.“

Jónas segir að verði farið út í eldi geldfiska hér við land skipti ekki aðeins máli hvernig þessir stofnar munu pluma sig við Ísland heldur þurfi einnig að undirbúa vel alla markaðssetningu.

„Það er ekki alveg víst hvernig markaðir taka þessu. Það þarf að gera markaðsrannsóknir og það er ennþá mikil vinna eftir í kringum það.“

Samstarf við Salmar

Stofnfiskur ásamt systurfélaginu Salmobreed í Noregi eru í eigu breska fjölþjóðafyrirtækisins Benchmark Holdings, sem á síðasta ári stofnuðu fyrirtæki með norska laxeldisfyrirtækinu Salmar. Fyrirækið heitir Salmar Genetic AS og mun sjá um kynbætur og alla hrognaframleiðslu fyrir Salmar í Noregi, en Salmar er stór hluthafi í Arnarlaxi. Sá samningur kveður meðal annars á um að Stofnfiskur útvegi Salmar hrogn ef á þarf að halda.

Stofnfiskur hefur framleitt laxahrogn frá árinu 1991 þegar fyrirtækið var stofnað. Árlega selur fyrirtækið um 100 milljónir hrogna sem seld eru um allan heim og sú framleiðsla gefur af sér um 250 þúsund tonn af eldislaxi.