Alltof mörg dæmi eru um mismunandi gerðir af sjósetningarbúnaði sem ekki hefur virkað og sjómenn látist á undanförnum árum. Engar reglur eru um að losunar- og sjósetningarbúnaður skili gúmmíbát upp á yfirborðið óháð dýpi eða hvort skipið sé á hvolfi. Þetta kemur m.a. fram í ályktun síðasta aðalfundar Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi. Fundurinn hvatti Rannsóknanefnd samgönguslysa til að meta hvaða sjósetningarbúnaður standist þær kröfur sem gerðar eru til hans og veiti ekki falskt öryggi.

Bergur Kristinsson, formaður Verðandi, segir sjósetningarbúnað hafa virkað illa í gegnum tíðina eins og dæmin sanna og sérstaklega á minni bátum.

Allt lagt að jöfnu

„Björgunarbátarnir eru að festast undir bátunum og búnaðurinn virkar ekki eins og hann á að gera. Sigmundsbúnaðurinn er eini búnaðurinn sem virkar í öllum halla og skýtur bátunum undan bátum þótt þeim hvolfi. Bátar eins og Jón Hákon, og fleiri sem hafa farið niður, hafa verið með aðrar tegundir sjósetningarbúnaðar sem hafa ekki náð að losa björgunarbátana.“

Bergur segir að prófanir á Sigmundsgálganum  hafi byrjað fyrir 37 árum og hann hafi sannað sig síðan. Hann segir að svo virðist sem Samgöngustofa og Rannsóknanefnd samgönguslysa megi ekki gefa út vottorð á góðan búnað. Allt sé lagt að jöfnu.

„Félagið vill að gerð verði úttekt á því hvaða búnaður virki en slík úttekt hefur ekki verið gerð. Það eru nokkrar gerðir í bátum, t.a.m. Olsen og Hammer 60. Ef gerð búnaðar á að vera val útgerðar segir það sig sjálft að útgerðir sem ekki eru fjársterkar kaupa ódýrasta kostinn. Útgerðir kaupa hugsanlega báta með losunarbúnaði og vilja ekki leggja í kostnað við að skipta honum út fyrir þann búnað sem virkar.“

Bergur segir þetta mikilvægt mál fyrir sjómannastéttina. Hugsanlega henti Sigmundsbúnaðurinn ekki fyrir smábáta en gera verði úttekt á þessum málum.