Niðurstöður talninga á útsel við Ísland haustið 2022, frá því fyrir tæpum tveimur árum, liggja nú fyrir að því er kemur fram á vef Hafrannsóknastofnunar.

„Stærð íslenska útselsstofnsins hefur verið metin reglulega frá 1982 með talningum á kópum að hausti. Í talningunni árið 2022 var heildarkópaframleiðslan metin vera 1551 kópar (95% öryggismörk = 1486-1613). Mikilvægasta kæpingarsvæðið var líkt og áður Breiðafjörður með um 62% af kópunum,“ segir á hafogvatn.is.

Út frá þessari kópatalningu er stofnstærð útsels árið 2022 metin 6697 dýr. „Það þýðir um 27% fækkun í stofninum frá fyrstu talningu sem fór fram árið 1982, en jafnframt um 6,8% fjölgun frá árinu 2017 þegar talning fór síðast fram. Breytingin á stofnstærð milli áranna 2005 og 2022 var þó ekki tölfræðilega marktæk sem þýðir að stærð stofnsins stendur í stað,“ segir á vef Hafrannsóknastofnunar.

Niðurstöður talningarinnar 2022 má sjá hér.