Hátt í helmingur filippseyskra og egypskra sjómanna á írskum fiskveiðiskipum hafa orðið fyrir alvarlegum meiðslum og ríflega 40 prósent hafa fundið fyrir mismunun, að því er fram kom á fundi írskrar þingnefndar nýverið.
Frá þessu skýrir írska dagblaðið The Irish Times. Á fundi atvinnu-, fyrirtækja- og nýsköpunarnefndar írska þingsins var upplýst um niðurstöður könnunar sem Miðstöð um réttindi innflytjenda á Írlandi (MRCI) lét gera.
Alls voru 30 starfsmenn á írskum fiskveiðiskipum, allir frá Egyptalandi eða Filippseyjum, spurðir út í reynslu sína. Sögðust 44 prósent þeirra hafa orðið fyrir meiðslum, eða allt frá alvarlegum skurðsárum yfir í beinbrot, 41 prósent höfðu orðið fyrir mismunun og 33 prósent sögðust hafa orðið fyrir líkamlegu eða munnlegu ofbeldi.
Þá sögðust 48 prósent þeirra ekki telja sig örugga í starfi og vísa þá til þess að þeir fái ekki nægan hvíldartíma eða ekki nógu marga frídaga. „Þar af leiðir að ofþreytan gerir þá líklegri til að verða fyrir vinnuslysum,“ sagði Dearbhla Ryan, starfsmaður MRCI, á fundi írsku þingnefndarinnar. Að auki segir hún að öryggisbúnaði sé víða ábótavant á írsku fiskiskipunum.