Um áramótin tóku gildi í Færeyjum ný fiskveiðistjórnunar lög sem meðal annars kveða á um að kvótakerfi verði tekið upp og uppboðsleiðin verði farin, með ákveðnum aðlögunartíma, auk þess sem útlensku eignarhaldi verður úthýst úr færeyskri útgerð.
Þar á meðal hefur Íslendingum verið gefinn sjö ára frestur til að losa sig við eignarhald í færeyskri útgerð. Sú krafa snertir meðal annars Samherja hér á Íslandi, en Samherji er eigandi færeyska útgerðarfélagsins Framherji.
Þessi breyting þýðir meðal annars að endurskoða þarf fríverslunarsamning Íslendinga og Færeyinga, Høyvíkursamninginn, sem gerður var árið 2005. Sá samningur gengur út á að Ísland og Færeyjar séu eitt efnahagssvæði, og er þetta víðtækasti fríverslunarsamningur sem Íslendingar hafa gert við annað ríki, að undanskildum samningum við Evrópusambandið um Evrópska efnahagssvæðið.
Íslendingar og Hollendingar
Krafa nýu laganna um færeyskt eignarhald í sjávarútvegi snertir einkum tvö stór útgerðarfyrirtæki í Færeyjum, Annars vegar Framherja sem er í eigu íslenska stórfyrirtækisins Samherja, og hins vegar JFK sem er að hluta í eigu hollenska útgerðarfyrirtækisins Parlevliet & Van Der Plas (eða P&P).
Þess má geta hér að Samherji á í samstarfi við hollenska fyrirtækið P&P um breska útgerðarfyrirtækið UK Fisheries Ltd, sem er til helminga í eigu dótturfyrirtækis Samherja og dótturfyrirtækis P&P
Samherji hefur tengst færeyskum sjávarútvegi síðan 1994, en það ár stofnaði Samherji þar útgerðarfyrirtækið Framherja í samstarfi við Færeyinga. Framherji gerir út þrjá togara í Færeyjum.
Þessar kröfur laganna um eignarhald eiga þó eingöngu við um útgerð, ekki fiskvinnslu, en Samherji á einnig hlut í vinnslufyrirtækinu Bergfrost í Fuglafirði.
Augljós mismunun
Þau ákvæði laganna, sem setja útgerðum það skilyrði að vera í færeyskri eigu, brjóta augljóslega gegn þeirri meginreglu Evrópusambandsins um að ekki megi mismuna eftir þjóðerni. Færeyingar eru hins vegar í þeirri stöðu að vera hvorki í Evrópusambandinu né aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, og geta því leyft sér slíka mismunun.
Þeir eiga hins vegar ekki jafn auðvelt með að komast framhjá fríverslunarsamningi Íslands og Færeyja, Høyvíkursamningnum, sem einnig bannar slíka mismunun.
Í lögunum er Íslendingum sem fyrr segir gefinn sjö ára frestur til að minnka við sig eignarhald í færeyskum sjávarútvegi, en jafnframt er sá varnagli sleginn að takist ekki samningar við Íslendinga um endurskoðun Høyvíkursamningsins innan sjö ára, þá framlengist þessi frestur sjálfkrafa.
Endurskoðun Høyvikursamningsins
Þá snýst spurningin um það hvort Íslendingar séu fáanlegir til að endurskoða þennan samning. Íslendingar gætu þar orðið tregir í taumi, enda væri tilgangur slíkrar endurskoðunar fyrst og fremst sá að auðvelda Færeyingum að koma Íslendingum út úr færeyskri útgerð.
Og fáist Íslendingar ekki til að endurskoða samninginn, þá eiga Færeyingar í raun aðeins tvo kosti: Annað hvort að segja hreinlega upp fríverslunarsamningnum, sem yrði afdrifaríkt fyrir báðar þjóðirnar, eða breyta fiskveiðistjórnunarlögum sínum þannig að hætt yrði við að koma Íslendingum út úr færeyskri útgerð.
Athugasemdir lögmanns Samherja
Gísli Baldur Garðarsson, lögmaður Samherja, sendi færeyska lögþinginu erindi þann 19. júní 2017 þar sem hann gerir athugasemdir við frumvarpið.
„Ég tel að litill vafi sé á því að ákvæði í lagafrumvarpinu brjóti í bága við samninginn milli Íslands og Færeyja,“ segir Gísli Baldur og vísar þar til niðurstöðu tveggja færeyskra lögmanna, Hans Christian Pape og Björns á Heygum, sem báðir hafa fjallað um þessi mál.
Pape vísar til dómafordæma Evrópudómstólsins þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að ákvæði, sambærileg þeim sem eru í Høyvíkursamningnum „um frelsi til fjármagnsflutninga og fjárfestinga, ættu að koma í veg fyrir að ákvæði yrðu sett upp um búsetuskyldu.“
Þá segir Björn á Heygum „engan vafa leika á því að ákvæði samningsins milli Íslands og Færeyja nái til allrar fjárfestingar Íslendinga í færeyskum sjávarútvegi,“ samkvæmt endursögn Gísla Baldurs.
„Hugsanlega er færeyska ríkisstjórnin með frumvarpi þessu að boða uppsögn samningsins við Ísland,“ segir Gísli Baldur í athugasemdum sínum. “Ekkert hefur komið fram um það enn sem komið er.“
Kvótakerfi tekið upp á næsta ári
Breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfi Færeyja hafa verið lengi í bígerð og hart verið deilt. Færeyska útgerðin er að mestu ósátt við niðurstöðuna en almenningur og stjórnarmeirihlutinn miklu sáttari.
Færeyska lögþingið samþykkti lögin þann 13. desember 2017 og tóku þau gildi fimm dögum síðar, eða 18. Janúar. Hið nýja fiskveiðistjórnarkerfi tók síðan gildi um áramótin og verða breytingarnar að teljast nokkuð róttækar.
Mikil breyting verður á úthlutun veiðileyfa í Færeyjum að því leyti að í staðinn fyrir að binda þau við einstök skip eru það eigendur skipanna, hvort heldur einstaklingar eða fyrirtæki, sem verða handhafar veiðileyfa. Eigendurnir geta síðan ráðið því hvaða skip þeir nota til þess að veiða fiskinn og geta skipt veiðiheimildum að vild á milli skipa.
Skipt um kerfi
Mesta breytingin verður væntanlega í byrjun næsta árs þegar aflamarkskerfi verður tekið upp í staðinn fyrir sóknardagakerfið, sem hefur verið ráðandi til þessa í færeyskri fiskveiðistjórnun.
Veiðileyfin verða seld til lengri eða skemmri tíma og afraksturinn fer beint í ríkissjóð. Þeim sem kaupa veiðileyfi ber skylda til að nýta sér þau. Ónýttur kvóti rennur aftur til ríkisins, sem getur þá selt hann aftur.
Til að byrja með halda núverandi útgerðarfyrirtæki þeim veiðiréttindum sem þau hafa haft óbreyttum, en veiðileyfin munu þó hér eftir aðeins gilda til átta ára hið minnsta. Eftir það verða þau sett á uppboð.
Lögþingið tekur síðan árlega afstöðu til þess hve langur gildistími nýrra eða endurnýjaðra veiðileyfa verður, en að lágmarki þó til átta ára.
Strandveiðar og byggðakvóti
Strandveiðar smábáta verða þó undanþegnar kvótakerfinu. Þar verður bátunum áfram úthlutað ákveðnum fjölda sóknardaga, með sama hætti og verið hefur.
Þá verður allt að 8,5 prósentum alls kvóta úthlutað til þróunarverkefna í sjávarútvegi. Þróunarkvótinn verður notaður til að auka verðmæti sjávarafurða og er ætlunin að úthluta honum sérstaklega til byggðarlaga þar sem aðgangur að auðlindinni hefur verið erfiður eða atvinnuleysi er yfir meðallagi.
Færeyingar hafa verið með uppboð á kvóta í tilraunaskyni fyrir ákveðnar fisktegundir og verður því haldið áfram. Þannig verður 15 prósent kvóta í makríl og síld boðið upp ásamt 25 prósentum kolmunnakvótans. Einnig verður 15 prósent heildarkvóta í botnfiskveiðum settur á uppboð, og í framtíðinni er reiknað með að allur kvóti fyrir ákveðnar tegundir verði boðinn upp, en það gerist þó ekki fyrr en hafa stækkað umfram ákveðin mörk.
Útlendingarnir út
Í nýju lögunum er skýrt tekið fram að allar auðlindir hafsins séu eign færeysku þjóðarinnar og geti þar af leiðandi aldrei orðið einkaeign, hvorki að lögum né í framkvæmd. Framsal er heldur ekki mögulegt nema í gegnum uppboð.
Jafnframt er ákvæði um að allar fiskveiðar eigi að vera sjálfbærar.
Skylt er að landa öllum afla til vinnslu í Færeyjum og verður fjórðungur aflans seldur á uppboði, að undanskildum þó fiski sem veiddur hefur verið með veiðileyfi sem keypt hefur verið á uppboði.
Þá er stefnt að því að draga mjög úr erlendu eignarhaldi í færeyskum sjávarútvegi, en veittur verður sex ára aðlögunartími. Íslendingar, bæði fyrirtæki og einstaklingar sem kunna að eiga hlut í færeyskum útgerðarfélögum, fá þó sjö ára aðlögunartíma.