Úthlutun aflaheimilda til einstakra svæða á strandveiðum verður ekki endurskoðuð í sumar, að sögn Gunnars Braga Sveinssonar sjávarútvegsráðherra.
„Það er búið að úthluta öllu sem hægt er að úthluta til strandveiða á þessu ári. Það er hins vegar eðlilegast að endurskoða úthlutunina á hverju ári og það verður væntanlega gert í vet-ur,“ segir ráðherra í Morgunblaðinu í dag.
Sem kunnugt er hafa smábátasjómenn á suðursvæði gagnrýnt að viðmiðunarafli á svæðinu hafi verið minnkaður um 200 tonn á sama tíma og heildarafli á strandveiðum var aukinn um 400 tonn. Forsenda ráðherra fyrir skerðingunni var sú að viðmiðunaraflinn hefur ekki náðst á suðursvæðinu síðustu tvö ár en nú ber svo við að vel hefur fiskast á svæðinu og voru veiðar t.d. stöðvaðar í nú í júlímánuði eftir aðeins fjóra veiðidaga.
Í viðtali við RÚV segir sjávarútvegsráðherra: „Ég geri ráð fyrir að fara í endurskoðun á hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins. Það er mjög flókið allt saman. Þar mun ég skoða lengd tímabilsins sérstaklega fyrir svæði D þannig að menn geti byrjað fyrr að veiða og hvort að hægt sé að úthluta þessu með einhverjum öðrum hætti en gert er í dag. Ég held að það verði aldrei neinn ánægður með þetta kerfi."