Aukin framlög á fjárlögum til Hafrannsóknastofnunar gera það kleift að fjölga úthaldsdögum rannsóknaskipa úr 204 dögum á nýliðnu ári í 290 daga í ár. Stofnuninni er þó áfram þröngur stakkur skorinn vegna niðurskurðar undanfarinna ára. Fjármagn vantar til grunnrannsókna.
Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum. Sjálfur fjárlagaramminn fyrir Hafrannsóknastofnun hækkaði um 90 milljónir króna milli ára, sem helgast m.a. af stórauknum verkefnum á sviði makrílrannsókna, en til viðbótar koma sérframlög til sérstakra verkefna í ár. Til dæmis fær stofnunin 150 milljónir króna aukalega til þátttöku í fjölþjóðlegum hvalarannsóknum á þessu ári. Einnig fékkst sérframlag til endurnýjunar á tækjabúnaði á árinu 2015 upp á 50 milljónir króna. Hækkun fjárlagarammans og sérframlög á árinu 2015 nema því samtals um 290 milljónum króna. Heildarframlög á fjárlögum til Hafrannsóknastofnunar 2015 er um 1.757 milljónir króna.
Að auki er gert ráð fyrir því að Hafrannsóknastofnun afli rétt rúmlega milljarðs í sértekjur á árinu 2015.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.