Úthaldsdagar rannsóknaskipa Hafrannsóknastofnunar verða 410 á þessu ári samanborið við 343 daga í skipaáætlun í fyrra. Fjölgunin stafar fyrst og fremst af aukinni áherslu á kortlagningu hafsbotnsins.

Sérstakri fjárveitingu upp á 200 milljónir króna er varið til kortlagningarinnar auk þess sem veitt var rúmum 140 milljónum króna til tækjakaupa vegna verkefnisins.

Mestur tími skipanna fer þó í stofnmælingar og vöktunarverkefni. Mjög hefur verið gagnrýnt hversu stuttan tíma rannsóknaskipin eru á sjó til fiskirannsókna ár hvert. Sumir segja að ófremdarástand ríki í þessum þætti hafrannsókna. Fiskifréttir spurðu Sigurð Guðjónsson forstjóra hvort hann tæki undir þá skoðun.

„Já, það get ég gert. Ef við ætlum að halda úti lágmarks stofnmælingum þyrftum við 300-400 milljónir króna í viðbót til úthalds skipanna. Við erum í vandræðum með að sinna nauðsynlegum lágmarksverkefnum, til dæmis kallar breytt hegðan loðnunnar á miklu meira úthald við rannsóknir á henni. Þá er makríllinn hrein viðbót við fyrri mælingarverkefni, þar til viðbótar koma svo mælingar á norsk-íslenskri síld og kolmunna og svo mætti áfram telja. Fjárveitingar haldast engan veginn í hendur við þessi auknu verkefni rannsóknaskipanna.“

Sjá nánar grein í nýjustu Fiskifréttum.