Nú liggja fyrir niðurstöður úr árlegri stofnmælingu úthafsrækju sem fram fór á r/s Bjarna Sæmundssyni í júlí síðastliðnum.
Í heild er vísitala úthafsrækjustofnsins svipuð og mældist í könnuninni árið 2011 og því ljóst að stofninn er áfram í mikill lægð miðað við síðasta áratug. Í leiðangrinum fékkst mest magn rækju við Grímsey og norður af Húnaflóa og var vísitala rækju á þessum svæðum nálægt langtímameðaltali. Á öðrum svæðum var vísitalan langt undir langtíma meðaltali.
Á austari hluta rannsóknasvæðisins, allt frá Grímsey að Rauða torginu, var rækjan smærri en síðastliðin ár, en á vestari hluta svæðisins var stærð rækju svipuð og undanfarin ár. Smæst var rækjan í Bakkaflóadjúpi (330 stk/kg) en stærst í Norðurkantinum (155 stk/kg) og á Rauða torginu (149 stk/kg).
Bráðabirgðaútreikningar sýna að nýliðun rækju er enn slök og langt undir langtímameðaltali.
Minna fékkst af þorski á rækjuslóðinni en undanfarin fjögur ár. Mest var af þorski vestast á rannsóknasvæðinu. Magn grálúðu var svipað og mælst hefur frá árinu 2009. Báðar tegundirnar éta rækju og geta haft töluverð áhrif á ástand rækjustofnsins.
Leiðangursstjóri í þessum leiðangri var Ingibjörg G. Jónsdóttir og skipstjóri var Ásmundur Sveinsson.
Sjá nánar frétt og skýringarmyndir á vef Hafrannsóknastofnunarinnar.