Aðalfundur Árborgar, félags smábátaeigenda á Suðurlandi, var haldinn í gær 15. september. Fundarmönnum var tíðrætt um samþjöppun sem nú ætti sér stað í sjávarútveginum, útgerðum fækkaði jafnt og þétt. Samstaða var á fundinum um að við þessu þyrfti að bregðast. Jafna þyrfti rekstrarskilyrði milli útgerða án vinnslu og þeirra sem væru með vinnslu. Þetta kemur fram á vef Landssambands smábátaeigenda.
Samþykkt var eftirfarandi: „Aðalfundur Árborgar beinir því 31. aðalfundar Landssambands smábátaeigenda að hvetja stjórnvöld til að jafna aðstöðumun milli útgerða án vinnslu og þeirra sem eru með vinnslu. Breytingin felist í að afsláttur verði veittur af veiðigjaldi til útgerða án vinnslu og selja afla sinn gegnum fiskmarkaði.“
Það var skoðun fundarins að með tillögunni mundi samkeppnisstaða milli aðila innan útgerðarinnar jafnast og fiskmarkaðir eflast sem eru útgerðaraðilum gríðarlega mikilvægir.