Útgerðir í Reykjavík greiða hæstu veiðigjöldin á yfirstandandi fiskveiðiári eða 2,2 milljarða króna samkvæmt áætlun sjávarútvegsráðuneytisins. Þar á eftir koma útgerðir á Suðurlandi með rúman 2,1 milljarð k´rona.
Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn Kristjáns L. Möller, þingmanns Samfylkingarinnar, um veiðigjöld. Í fyrirspurn Kristjáns var óskað eftir sundurliðun á veiðigjöldum eftir sveitarfélögum. Í svari ráðherra kemur fram að vegna persónuverndarsjónarmiða sé ekki hægt að verða við þeirri beiðni þar sem í smærri byggðarlögum séu aðeins fáir í útgerð.
Útgerðir Norðurlandi eystra greiða 1,5 milljarð króna og á Reykjanesi tæplega 1,3 milljarða en útgerðir í öðrum landshlutum minna.
Sjá nánar svar ráðherrans HÉR.