Útvegsbændafélag Vestmannaeyja segist hafa þungum áhyggjur vegna afleiðinga þess verði veiðigjaldafrumvarp atvinnuvegaráðherra að lögum.

Þetta kemur fram í eftirfarandi yfirlýsingu:

„Útvegsbændafélag Vestmannaeyja lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri ákvörðu að knýja í gegnum Alþingi með fordæmalausum hætti lagabreytingu um stórfellda hækkun á veiðigjaldi, þvert á aðvaranir fjölda fagaðila hjá hinu opinbera, sveitarfélaga, sérfræðinga og atvinnulífsins. Með lögunum er verið að setja á verulega skattahækkun sem byggist á óþekktu skattandlagi og kolröngum útreikningum, sem eykur verulega óvissu í rekstrarumhverfi sjávarútvegsins. Langstærsti hluti umsagna sem bárust atvinnuveganefnd sýna að breytingin geti haft íþyngjandi og ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir rekstur útgerða og fyrir sveitarfélög, sérstaklega í byggðum á borð við Vestmannaeyjar, þar sem sjávarútvegur er burðarás samfélagsins. Sveitarfélög og atvinnurekendur hafa varað við því að þessi skattlagning muni óhjákvæmilega leiða til mikilla breytinga í sjávarútvegi sem leiðir til lakari afkomu og afleiðingarnar verða:

 Fækkun starfa í greininni sjálfri og hjá þjónustufyrirtækjum.

 Minni geta til að greiða samkeppnishæf laun sem leiðir til atgervisflótta úr greininni.

 Samdráttur í fjárfestingum, m.a.:

 Samdráttur í nýsköpun í hliðtengdum greinum.

 Lækkandi arðsemi í greininni og fjármagnsflótti út úr henni.

 Verri lánakjör greinarinnar og hækkun fjármagnskostnaðar.

Á endanum mun skattspor sjávarútvegs minnka og tekjur þjóðarbúsins þ.a.l. minnka.

Með þessum breytingum bætist við enn ein óvissan í rekstrarumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja, sem þegar búa við óstöðugleika vegna árlegra breytinga á veiðiheimildum og síbreytilegra forsendna á mörkuðum erlendis. Stríð og óvissa í alþjóðamálum gera sölu afurða erfiðari og eru stjórnvöld með aðgerðum sínum að draga enn frekar úr samkeppnishæfni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Málið snýst ekki um fjórar til fimm fjölskyldur eins og forsætisráðherra hefur haldið fram. Þetta snýst um alla starfsmenn sem starfa hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og í afleiddum störfum í Vestmannaeyjum og víðar. Þetta eru þúsundir fjölskyldna í landinu sem hafa beina og óbeina hagsmuni af farsælum rekstri í sjávarútvegi. Gangi reksturinn illa þá líður samfélögunum illa.

Útvegsbændafélag Vestmannaeyja skilaði inn umsögn um frumvarpið til atvinnuveganefndar Alþingis. Í fyrsta skipti í 100 ára sögu félagsins kom þó sú staða upp að forsvarsmönnum þess var ekki boðið að mæta á fund nefndarinnar til að ræða sjónarmið sín við þingmenn meirihluta og minnihluta. Slíkt fordæmalaust verklag dregur úr trúverðugleika málsmeðferðar og grefur undan lýðræðislegum vinnubrögðum.

Útvegsbændafélagið bendir á að óháðir aðilar og sérfræðingar hafa bent á að lagasetning af þessu tagi sé varhugaverð og kunni að stangast á við grundvallarreglur um jafnræði og fyrirsjáanleika. Slík lagaákvæði hafa í fortíðinni leitt til kostnaðarsamra og margra ára málaferla, þar sem aðilar hafa þurft að sækja rétt sinn fyrir dómstólum til að vinda ofan af rangri lagasetningu eftir á.

Útvegsbændafélag Vestmannaeyja skorar á stjórnvöld að endurskoða málið, leggja grunn að faglegri og ábyrgri lagasetningu og virða bæði eðlilega stjórnsýslu og réttmætar athugasemdir hagsmunaaðila.

Útvegsbændafélag Vestmannaeyja Bergur-Huginn ehf. Bylgja VE 75 ehf. Frár ehf. Huginn ehf. Ísfélag hf. Narfi ehf. Ós ehf. Vinnslustöðin hf.