Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun, segir áætlað að farið verði í leiðangur til að kanna stöðu loðnu 10. desember.
Um er að ræða túr sem ekki var á dagskrá hjá stofnuninni en er kostaður af útgerðarfyrirtækjum.
Hafrannsóknarstofnun kynnti 4. október síðastliðinn þá ráðgjöf að ekkert yrði veitt af loðnu á komandi vertíð.
„Núllráðgjöfin byggir á haustleiðangri sem var í september,“ segir Guðmundur. Lítið hafi í raun vantað upp á í þeirri mælingu. „Það var alveg á mörkunum að gefa út kvóta.“
Þessi staðreynd vekur vonir útgerðanna um að staðan breytist. „En auðvitað er alltaf óvissa í þessum mælingum og ómögulegt að segja til um hvað verður,“ segir Guðmundur.
Ekki óvanalegt að sjá loðnu
Heyrst hefur að togarasjómenn hafi séð til loðnu langt út af Vestfjörðum og á Grænlandssundi.
„Það kemur ekkert á óvart og er alvanalegt allt árið um kring að við sjáum loðnu í fiski þar,“ segir Guðmundur sem kveðst þó ekki hafa frétt af slíku núna. „En ég hef heyrt af loðnu frá togurum djúpt út af Norðurlandi.“
Leiðangurinn í desember verður farinn á báðum skipum Hafrannsóknastofnunar. „Þetta er leiðangur sem er kostaður af útgerðum uppsjávarskipa. Þær leigja rannsóknarskipin okkar í þetta,“ segir Guðmundur. Túrinn verði í kringum sex daga langur.
Guðmundur segir leiðangurinn í desember ekki hafa verið í áætlunum
Hafrannsóknastofnunar.
Fá hagnýtar upplýsingar
„Okkar plön voru að fara bara í janúar,“ segir Guðmundur. Þótt farið sé í þennan kostaða túr í desember muni stofnunin halda sínu striki og fara einnig í janúar.
Guðmundur tekur fram að Hafrannsóknastofnun fari í desembertúrinn vegna þess að stofnunin sjá sér hag í honum.
„Við fáum að sjá hversu langt loðnan er komin fyrir norðan land og hvort hún sé komin út af Langanesi og hversu austarlega. Við getum þá gert plön um dagsetningar á túrnum hjá okkur í janúarmælingunum. Þetta hjálpar við skipulagningu á þeim leiðangri,“ segir Guðmundur. Reiknað sé með að túrinn verði um miðjan janúar.
Að sögn Guðmundar myndi stór hluti þess sem bætist við mælinguna frá í september verða til kvóta. Ákveðið magn sé ætlað til hrygningar og ákveðið magn sé áætlað að verði étið af þorski, ufsa, ýsu og fleiri tegundum. Magn umfram það geti komi til kvóta.
Ekki miklar vonir í desember
„Markmiðið er bæði að kortleggja útbreiðsluna og svo auðvitað að freista þess að fá mælingu en við gerum okkur ekki miklar vonir um það. Við gerum ekki ráð fyrir að loðnan sé komin á svæðið,“ segir Guðmundur.
Útgerðarfyrirtæki sem stunda veiðar á uppsjávarfiski og eru undir hatti Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi skipta með sér kostnaðinum af leiðangrinum í desember.
„Við erum að gefa þeim þetta á kostnaðarverði,“ svarar Guðmundur sem kveður heildarkostnaðinn vera af stærðargráðunni 25 til 30 milljónir króna.
Útgerðirnar greiddu einnig fyrir loðnuleiðangra Hafrannsóknastofunar í desember í fyrra og í janúar á þessu ári. „Þannig að þær hafa verið að leggja töluvert af mörkum til okkar rannsókna,“ segir Guðmundur J. Óskarsson.