Óánægju er farið að gæta meðal útgerðarmanna með það að sjókvíaeldisfyrirtæki séu eins og þeir undir hatti Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS.

Í Heimildinni er rætt við Ólaf Rögnvaldsson, útgerðarmanna hjá Hraðfrystihúsi Hellissands, sem segist algjörlega vera á móti því að sjókvíaeldisfyrirtæki sé innan SFS og telur að sjókvíaeldi muni líða undir lok.

Ólafur segist hafa verið mjög hlynntur sjókvíaeldi út frá byggðarsjónarmiðum en atburðir frá því í sumar hafi breytt málinu alfarið.

„Ég hef lifað og hrærst í sjávarútvegi alla tíð og ef við gerum einhver mistök er okkur hegnt, einn, tveir og bingó. Þarna virðist þetta hafa verið algjörlega eftirlitslaust. Þarna var opin kví í þrjá mánuði. Þetta er ófyrirgefanlegt, algjörlega,“ segir Ólafur í samtali við Heimildina.