Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, skrifaði grein í jólablað Fiskifrétta þar sem hann fjallaði meðal annars um skerðingu í línuívilnun og kvótasetningu grásleppu.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS.

„Línuívilnun var komið á fyrir tilstuðlan LS árið 2003. Á árinu voru heimildir í þorski skertar þannig að hennar naut ekki við í einn og hálfan mánuð. Þrátt fyrir að 115 tonn hefðu bæst við og viðmið hækkað í 1.215 tonn. Nú blasir hins vegar við kaldur veruleikinn, þriðjungs skerðing, aðeins 800 tonn af þorski ætluð til ívilnunar. Útgerð tuga smábáta stendur og fellur með línuívilnun og alls engin rök fyrir að ógna útgerð þeirra nema ef vera skyldi meðvituð ákvörðun að auka samþjöppun með færslu veiðiheimilda til stærri útgerða. Þá eru ótalin störfin sem hún skapar. Gott dæmi um það eru ummæli Ingólfs Árna Haraldssonar skipstjóra: „Á Drangsnesi eru 2 bátar á bölum og 1 á uppstokkaðri línu og á Hólmavík eru einnig 2 á bölum og 1 á uppstokkaðri. Við þessa 6 báta skapast um það bil 18 störf í landi.“

Aðalfundur LS ályktaði eftirfarandi um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin. „LS leggur til að dagróðrabát um minni en 30 tonnum og styttri en 15 metrar verði tryggð línuívilnun. Ívilnun verði 30% þar sem beitt er í landi, 20% við uppstokkun. Línuívilnun nái til afla upp að 7.000 kg í róðri.”

Strandveiðar

Strandveiðar hafa verið stundaðar sl. 16 sumur. Þær hafa auðgað mannlíf í hinum dreifðu byggðum, gert sjávarútveginn sýnilegri og gefið hundruð sjómanna tækifæri til að nýta auðlindina með að róa á sínum eigin bát. Það er krafa Landssambands smábátaeigenda, að til að atvinnugreinin strandveiðar vaxi og dafni, þurfi að festa í lög 48 veiðidaga, 12 dagar í hverjum mánuði, maí-ágúst. Óheimilt verði að stöðva veiðarnar á tímabilinu. LS hefur á árinu barist fyrir þessari kröfu og fært fram margvísleg rök. Í bréfi til Bjarkeyjar Olsen Gunnars dóttur, þv. matvælaráðherra, var niðurlag bréfsins eftirfarandi: „Með útgerð á áttunda hundrað strandveiðibáta er plássum, sem voru illa leikin af framsali aflaheimilda eða vegna annarra hrakfara, veitt hlutdeild í sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Þá gefa strandveiðar þeim sem ekki hafa yfir að ráða aflamarki tækifæri til útgerðar, auk þeirra sem hafa litlar veiðiheimildir að ná lengri nýtingu á bát og búnað.“

Samkvæmt könnun sem Matvælaráðuneytið lét gera í mars 2023 styðja 72,3% landsmanna að veiðiheimildir til strandveiða verði auknar. Á sl. sumri stunduðu 756 bátar strandveiðar. Hér sést hvernig fjöldinn hefur skipst milli ára.

Á þessum vettvangi er jafnframt við hæfi að birta þróun þorskafla á hvern dag hjá strandveiðibátum, þar sem hámarkið er 774 kg af óslægðum þorski í hverri veiðiferð.

Grásleppan

Frá árinu 2018 hafa ráðherrar reynt að breyta farsælli veiðistjórn á grásleppu úr sóknarmarki í aflamark. Það tókst þeim ekki. Þá var að leita hjálpar hjá meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis sem tókst að fá veiðistjórninni breytt með vinnubrögðum sem eiga sér ekki fordæmi. Nú glímir Fiskistofa við að framkvæma óskapnaðinn þar sem fátt annað blasir við en harðar deilur og uppnám á vertíðinni 2025.

Dæmi um breytingar sem nefndin gerði milli 1. og 2. umræðu var að svipta á annað hundrað aðila hlut deild í veiðunum. Rétti um ákveðinn fjölda daga til veiða var breytt í aflamark þar sem núllið eitt blasir við.

LS lýsir sig andvíga kvóta setningu grásleppu og vill að kvótasetningin verði afturkölluð, jafnframt verði sóknardagakerfi í grásleppu veiðum endurvakið með nýrri lagasetningu.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.