Á árinu 1963 tók stjórn Síldarvinnslunnar ákvörðun um að fyrirtækið skyldi hefja útgerð. Samþykkt var að festa kaup á 264 tonna fiskiskipi sem smíða átti í Austur-Þýskalandi og var gert ráð fyrir að það yrði afhent í nóvember 1964. Fékk skipið nafnið Barði en afhending þess dróst vegna þess að flutningaskip sigldi á það þegar farið var í reynslusiglingu á Elbufljóti og skemmdi mikið.

Barði kom því ekki í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað fyrr en 5. mars 1965. Áður en útgerð Barða hófst hafði Síldarvinnslan tekið Gullfaxa á leigu og gert hann út frá áramótum og fram á vor 1964 í þeim tilgangi að afla hráefnis fyrir fiskvinnslustöð Samvinnufélags útgerðarmanna.

Nú eru sex skip í flota Síldarvinnslunnar: Uppsjávarskipin Börkur, Beitir og Birtingur, ísfisktogarinn Bjartur og frystitogararnir Barði og Blængur. Þá gerir dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði, Gullberg, út ísfisktogarann Gullver og dótturfyrirtæki í Vestmannaeyjum, Bergur-Huginn, gerir út ísfisktogarana Vestmannaey og Bergey.

Þá á Síldarvinnslan hlutdeild í uppsjávarskipinu Bjarna Ólafssyni og eins í grænlenska uppsjávarskipinu Polar Amaroq.

Sjá nánar um útgerðarsögu Síldarvinnslunnar HÉR