Fyrir tíu árum eða svo skipti fiskur frá Víetnam litlu máli á alþjóðlegum markaði en vöxtur þar hefur verið ótrúlegur. Nú hefur Víetnam skipað sér í röð helstu útflytjenda sjávarafurða í heiminum. Það sem af er þessu ári hafa verið fluttar út sjávarafurðir fyrir um 4,4 milljarða dollara frá Víetnam (um 515 milljarða ISK), að því er fram kemur á vefnum fishupdate.com.
Reiknað er með því að Víetnamar flytji út sjávarafurðir fyrir vel rúmlega 5 milljarða dollara á árinu 2011. Sjávarútvegsráðherra Víetnam segir að útflytjendur keppist við að fara yfir 6 milljarða dollara markið. Sérfræðingar efast þó um að það takist í ljósi erfiðleika í greininni í Víetnam og efnahagsástandsins í heiminum.
Stærsti markaðurinn fyrir sjávarafurðir frá Víetnam er í Bandaríkjunum en meginland Evrópu og Bretland koma þar á eftir. Helstu útflutningsvörurnar eru pangasius, víetnamskur beitarfiskur og rækja.