Heildarsamtök fiskimanna í Alaska hafa gefið út skýrslu þar sem mikilvægi sjávarútvegs fyrir einstakar borgir og byggðarlög í Alaska er undirstrikað, að því er fram kemur á fis.com.

Formaður samtakanna, Arni Thomson, segir að þeir hafi miklar áhyggjur af því hvað almenningur viti lítið, og láti sig litlu skipta hvert framlag fiskveiða og fiskvinnslu er í efnahags- og atvinnulífi Alaska.

Fram kemur í skýrslunni að útflutningur sjávarafurða frá Alaska hafi numið 2,35 milljörðum USD (275 milljörðum ISK) árið 2010.

Sem dæmi um mikilvægi sjávarútvegs er vakin sérstök athygli á því að í Juneau, höfuðborg Alaska, eru útgefin leyfi til fiskveiða 6.650 að tölu, fjöldi sjómanna er 7.300 og um 4.300 manns starfa við fiskvinnslu. Um 7.500 skip eru með skráða heimahöfn í Juneau.