Fluttar voru út sjávarafurðir fyrir um 13,3 milljarða króna í janúar samanborið við 10,3 milljarða króna í janúar 2008, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Þrátt fyrir aukningu í krónum talið er hér um tæplega 24% samdrátt að ræða reiknað á föstu gengi.
Samdrátturinn er mestur í lýsi, 66% miðað við fast gengi, en 45% samdráttur er í frystum flökum. Sömuleiðis dregst útflutningur á frystri rækju saman um 45%. Hins vegar er 54% aukning í fiskmjöli og 25% aukning í frystum heilum fiski.
Til samanburðar má geta þess að útflutningur á áli var 11,9 milljarðar króna í janúar, nokkru minni en útfluttar sjávarafurðir og dróst verðmæti áls saman um tæp 7% á milli ára. Heildarvöruútflutningur frá landinu nam 33,6 milljörðum króna í janúar og þar af vega sjávarafurðir tæp 40%.