Útflutningur á sjávarafurðum frá Noregi til Úkraínu hefur hríðfallið það sem af er þessu ári vegna óaldarinnar í landinu. Samkvæmt tölum frá norska sjávarafurðaráðinu nemur samdrátturinn um 40% það sem af er árinu.

Í kjölfar uppreisnarinnar í Úkraínu í febrúar hefur landið gengið í gegnum efnahagshrun. Gengi úkraínska gjaldmiðilsins hryvnia snarféll og kaupgeta minnkaði verulega.

Úkraína er mikilvægur markaður fyrir uppsjávarafurðir Norðmanna. Á fyrri helmingi þessa árs nam útflutningurinn 27.000 tonnum en var á sama tíma í fyrra 44.000 tonn. Þetta er um 38% samdráttur. Útflutningsverðmætin drógust saman úr 447 milljónum norskra króna, tæpum 8,3 milljörðum ÍSK, í 209 milljónir n.kr., tæpa 4 milljarða ÍSK.

Meðal afurða sem Norðmenn selja til Úkraínu er frystur makríll, sem fór úr 5.600 tonnum í 1.800 tonn, fryst loðna sem fór úr 6.800 tonnum í tæp 1.300 tonn, en minni sveiflur urðu í útflutningi á frystri síld og lax.