Talsverð tímamót urðu í fiskmjölsiðnaðinum hérlendis þegar samningar náðust milli Félags fiskmjölsframleiðenda og Landsvirkjunar um þróun raforkuverðs til fiskimjölsverksmiðja. Enn eru þó tvær fiskmjölsverksmiðjur knúnar alfarið með olíu. Flutt voru út 129.595 tonn af mjöli og 42.546 tonn af lýsi árið 2017 sem er tæplega 67.000 tonnum meiri útflutningur en árið 2016.
Lang stærsti hluti fiskimjöls sem framleiddur er á Íslandi, yfir 75% allrar framleiðslunnar, er seldur til Noregs og fer nær eingöngu í fóðurframleiðslu fyrir fiskeldi. Miklar sveiflur hafa verið í hráefnismóttöku fiskmjölsverksmiðja á síðustu árum og þess vegna miklar sveiflur í framleiðslu og útflutningsverðmætum.
Tölur yfir útflutningsverðmæti árið 2017 liggja ekki fyrir en útflutningurinn á mjöli og lýsi nam 172.141 tonnum. Á árinu 2016 nam útflutningur verksmiðjanna 105.315 tonnum og útflutningsverðmætið var 24 milljarðar. Bæði var vertíðin í fyrra stærri en árið 2016 en ennfremur voru seld úr landi um 20.000 tonn af birgðum í ársbyrjun 2017 af framleiðslu ársins á undan. Það ræðst síðan af gangi veiða á uppsjávartegundum hver framleiðslan verður á þessu ári, ekki síst loðnuvertíðinni. Birgðastaðan mun vera fremur hagstæð í landinu um þessar mundir.
Samið við Landsvirkjun
Jóhann Peter Andersen, framkvæmdastjóri Félags fiskframleiðenda, segir eitt af verkefnum félagsins sé að tryggja að raforkuverð til verksmiðjanna sé með þeim hætti að það sé raunhæfur kostur að keyra þær á rafmagni.
„Við gerðum í mars í fyrra samkomulag við Landsvirkjun um verð fram í tímann. Með því urðu talsverð tímamót fyrir iðnaðinn að geta skipulagt sig lengra fram í tímann en til þriggja mánaða í senn. Samningurinn nær til þriggja ára og felur það í sér að vitað er hvernig verðið muni þróast á samningstímanum,“ segir Jóhann Peter.
Verð á skerðanlegu rafmagni þróast nú í takt við almennt raforkuverð en áður höfðu verksmiðjurnar mátt búa við mun meiri hækkanir en urðu á almennu raforkuverði. Sem dæmi um þetta hækkaði verð á flutningi skerðanlegs rafmagns um 277 % á milli áranna 2009 og 2016 meðan flutningur á annarri raforku hækkaði um 20%.
„Þetta er slagurinn sem við höfum staðið í. Hefði þessi þróun haldið áfram væri rafmagnið alls enginn valkostur,“ segir Jóhann Peter.
5 verksmiðjur alfarið á rafmagni
Ellefu fiskmjölsverksmiðjur eru starfræktar á landinu allt frá Þórshöfn, austur eftir landinu, í Vestmannaeyjum og Akranesi. Tvær af þessum ellefu verksmiðjum eru eingöngu keyrðar á olíu, þ.e.a.s. fiskmjölsverksmiðjur Ísfélagsins í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn. Ástæðurnar eru þær að til Þórshafnar liggur ekki rafmagnsstrengur sem getur flutt nægilega raforku þangað og í Vestmannaeyjum hefur raforkuflutningurinn verið mjög takmarkaður. Fiskmjölvinnsla Vinnslustöðarinnar í Vestmannaeyjum er að hálfu leyti knúin rafmagni og að hálfu leyti olíu. Hægt væri að knýja hana alfarið rafmagni ef nægileg flutningsgeta væri til staðar. Hugsanlega stendur það til bóta þar sem lagður var nýr strengur og hækkuð spennan til Vestmannaeyja síðastliðið sumar.
Fimm verksmiðjur í landinu eru alfarið knúnar rafmagni, verksmiðja HB Granda á Vopnafirði, Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, Eskju á Eskifirði, Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði og Skinneyjar-Þinganess á Hornafirði. Fjórar verksmiðjur eru síðan knúnar rafmagni og olíu.
Umhverfisvænni en ekki hagkvæmari
Jóhann Peter segir rekstur þeirra verksmiðja sem eingöngu eru knúnar rafmagni ekki hagkvæmari en annarra verksmiðja. Rekstrarkostnaðurinn sé svipaður milli verksmiðja eftir orkugjöfum. Á tímabili var rekstrarkostnaður rafknúinna verksmiðja hærri þegar heimsmarkaðsverð á olíu var sem lægst.
„Þær verksmiðjur sem voru síðastar til að rafvæðast hafa ekki ennþá fengið fjárfestingarkostnað sinn til baka. En rafvæddar verksmiðjur eru að sjálfsögðu mun umhverfisvænni. Það liðkar fyrir sölu á afurðum. Sérstaklega í byrjun lýstu mjölkaupendur ánægju sinni í upphafi rafvæðingarinnar. Það hjálpar enn við sölumálin að geta boðið upp á afurðir frá verksmiðjum sem eru 100% umhverfisvænar.“