Útflutningur á eldislaxi frá Skotlandi hefur aukist um 500% á undangengnum 20 árum, að því er fram kemur í skýrslu frá Scottish Salmon Producers Organization (SSPO), samtökum framleiðenda eldislax þar í landi.
Skotland er annar stærsti framleiðandi á eldislaxi í heiminum og kemur næst á eftir Noregi.
Í skýrslunni kemur fram að um 52.600 tonn af eldislaxi hafi verið flutt út frá Skotlandi á árinu 2008. Þar segir einnig að laxeldið kaupi vörur og þjónustu fyrir 542 milljónum punda (107 milljarða ísl. kr.) sem skilar sér inn í efnahagslíf Bretlands.
Um 1.600 manns vinna hjá félagsmönnum SSPO en í heild vinna um 6 þúsund manns við fiskeldi í Skotlandi.
Heimild: IntraFish.