Fyrstu átta mánuðina 2013 voru fluttar út vörur fyrir 393,8 milljarða króna en inn fyrir 362,6 milljarða króna fob, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar. Fluttar voru út sjávarafurðir fyrir 173,7 milljarða á tímabilinu á móti 176 milljörðum á sama tíma í fyrra.
Fyrstu átta mánuði ársins 2013 var verðmæti vöruútflutnings 20,7 milljörðum eða 5,0% minna á gengi hvors árs en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 52,1% alls útflutnings og var útflutningur þeirra 6,9% minni en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 44,1% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 1,3% minna en á sama tíma árið áður. Samdráttur í útflutningi á iðnaðarvörum og sjávarafurðum er að hluta til vegna verðlækkana á afurðaverði.