Sjávarútvegsráðstefnan 2014 var sett í Reykjavík í morgun. Í erindi Kristjáns Hjaltasonar kom fram að gera mætti ráð fyrir að útflutningsverðmæti sjávarafurða á þessu ári yrði 260 milljarðar króna og búast mætti við svipaðri fjárhæð á næsta ári.
Til samanburðar nefndi hann að útflutningsverðmætið á árinu 2013 hefði numið 282 milljörðum króna. Það er reyndar nokkru meira en tölur Hagstofunnar segja til um, en skýringuna sagði hann þá að í hagstofutölunum væri ekki gert ráð fyrir eldisfiski og niðursoðinni lifur.
Meginástæða lækkunar útflutningsverðmæta milli ára er samdráttur í veiðum á uppsjávarfiski.
Á Sjávarútvegsráðstefnunni sem stendur í dag og á morgun verða flutt um 40 erindi um ýmsar hliðar sjávarútvegsins.